154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

737. mál
[16:03]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa yfirferð í þessu máli sem hefur fylgt þjóðinni í 26 ár og hillir nú loksins undir að því ljúki á næsta ári, eins og lagt er til í þessu frumvarpi. Í aðdraganda þjóðlendumálsins á níunda áratugnum var rætt um að eðlilegt væri að skýra mörk svokallaðs einskismannslands á hálendinu sem og í einhverjum tilvikum einnig eignamörk afrétta. Ég tek undir það með hæstv. forsætisráðherra að það er rétt að það var alveg skýr langtímasýn þegar þessi lög voru sett á sínum tíma en hins vegar beygðu menn mjög fljótlega af leið í þeim efnum að mínu mati og því miður þá hafa kröfugerðir ríkisins verið, að ég vil meina og hafa margir tekið undir það, í andstöðu við upphaflegan tilgang þessarar vegferðar sem hófst fyrir 26 árum, eins og ég nefndi hér.

Málsmeðferðin sem hefur verið viðhöfð í mörgum tilvikum verið óásættanleg. Það er bara staðreynd sem við þurfum að horfast í augu við og mjög margir sem hafa komið að þessum málum hafa talað í sömu veru. Kröfugerðirnar voru því miður oft á tíðum úr hófi og þar eru nýjustu dæmin skýr; krafa ríkisins um að allar Vestmannaeyjar og Heimaey að hluta, m.a. allt landsvæði sem myndaðist í Eyjagosinu árinu 1973, þetta eru kröfur sem ríkið gerir um að það eigi. Þar að auki er t.d. krafa um að Stórhöfði og Skansinn og aðrir hlutar Heimaeyjar verði að þjóðlendu. Það má nefna að gerð er krafa til allra eyja og skerja í Vestmannaeyjum, eins og t.d. Elliðaey, Bjarnarey og Surtsey. Svo er gerð krafa um að eyjajarðir í Breiðafirði og víðar verði í eigu ríkisins og ekki má gleyma kröfu ríkisins í 11 hektara tún í Norðurárdal. Þetta eru síðustu kröfur sem eru settar fram í þessari vegferð og lýsa, held ég bara, því sem hefur átt sér stað í þessu ferli, að menn eru komnir algjörlega fram úr sér, ég held að það sé alveg ljóst. Menn eiga að horfast í augu við það. Við getum einnig nefnt nokkur dæmi frá Norðausturlandi. Þar var sums staðar gerð sú krafa að land væri skilgreint sem þjóðlenda allt niður í sjó. T.d. var gerð var krafa um að 75% af landi Grýtubakkahrepps yrði skilgreint sem þjóðlenda í eigu ríkisins og dæmi um sams konar kröfur í allt að 90% jarða.

Ég verð því að segja, herra forseti, að framganga ríkisins hefur þannig ekki verið í anda þess samstarfs sem bændur og ríkisvaldið áttu í aðdraganda málsins. Ekki má gleyma því að bændur voru ekkert ósáttir við það að farið var af stað í þessum efnum. Þeir vildu að sjálfsögðu eyða óvissu og voru því ekki mótfallnir þessum lögum í upphafi. Ég verð að segja að þessi aðdragandi málsins er ekki í samræmi við tilgang laganna sjálfra sem fyrst og fremst var að tryggja eignamörk bújarða þannig að hvergi leiki vafi á um hann, þ.e. eignarrétt jarðeigenda. Það átti enginn von á því að ríkið myndi gera kröfur í þinglýstar jarðir. En það varð hins vegar raunin, herra forseti. Það er náttúrlega mjög sérstakt að sönnunarbyrðin skuli í sumum tilfellum vera lögð á landeigendur. Slík málsmeðferð er í raun og veru í fullu ósamræmi við almennan refsirétt. Þar er sönnunarbyrði sektar á höndum ákæruvaldsins en ekki öfugt, eins og við vitum. Ég verð því að segja, herra forseti, að málaferli óbyggðanefndar hafa því miður stuðlað að sundrungu. Það hefur aldrei ríkt eining um þetta mál innan stjórnmálanna, ekki innan stjórnmálaflokka og ekki innan ríkisstjórnarflokka. Þrátt fyrir það er haldið áfram.

Þetta mál snýst ekki bara um landsvæði heldur snýst það um fólk sem hefur þurft að verja sig gagnvart ríkisvaldinu sem hefur í raun komið aftan að fólki, vil ég meina. Ég vil t.d. nefna dæmi í þeim efnum að ég þekki til t.d. að fyrir u.þ.b. þremur árum þá keypti framtaksríkt fólk 63 eyjar á Breiðafirði sem voru settar á sölu og hafa verið að gera þar góða hluti með ferðaþjónustu og annað slíkt. En nú er komin krafa á þessa sömu aðila rúmum þremur árum síðar um að í raun og veru eigi ríkið 62 þessara eyja en þessir einstaklingar eina. Við sjáum náttúrlega bara hvert við erum komin, að þarna þurfa þessir einstaklingar sem keyptu þessar 63 eyjar að sanna það að þeir eigi þær. Ég held að fólk hafi aldrei gert sér grein fyrir því þegar það fór að í það að fjárfesta með þessum hætti og stuðla að uppbyggingu, að það þyrfti að standa í þessum málaferlum.

Farið var að vefengja þinglýstar eignir og fólk sem hefur átt aðkomu að þessum málum er nú orðið tortryggið í garð ríkisins. Formaður Félags landeigenda sagði á sínum tíma að þjóðlendumálið væri hlunnindarán. Annars vegar er um að ræða landeigendur, eignir þeirra og réttindi, og hins vegar er hópur fólks sem telur það til mikilla hagsbóta fyrir þá sem ekkert land eiga að ríkið slái eign sinni á sem mest land, það sé nokkurs konar þjóðareign.

Ég held að allir hafi skilning á því að mikilvægt sé að skilgreina hálendi landsins, þetta svokallaða einskismannsland, sem eign allra landsmanna og þar með talið bænda. Eins og ég sagði áðan voru bændur alls ekkert á móti því að eyða þessari óvissu en sú framganga sem hefur verið viðhöfð í allt of mörgum tilfellum af hálfu ríkisins, að virða ekki eignarland á þinglýstum eignum, er alvarleg og óásættanleg. Það var afar mikilvægt að um þjóðlendumálið ríkti sátt, eins og til stóð í upphafi. Það verður að segjast eins og er, forseti, að það mistókst hreinlega. Það skrifast á ríkisvaldið og embættismenn óbyggðanefndar og þær óbilgjörnu kröfur sem haldið hefur verið til streitu frá upphafi. Auðvitað átti löggjafinn að grípa strax inn í þegar ljóst var hvert var verið að stefna og strax hefði átt að stöðva þær forsendur, málsmeðferð og aðferðafræði sem embættismenn óbyggðanefndar viðhöfðu gagnvart bændum og öðrum landeigendum. En þarna skorti bara löggjafann vilja og kjark. Það var margsinnis búið að benda á þessa hluti.

Ég vil minna þá á það hér í þessari umræðu að einn fremsti lagaprófessor landsins sagði á sínum tíma að lögin um óbyggðanefnd væru óþörf, að framkvæmd þjóðlendulaganna orkaði tvímælis og vafasamt að hún stæðist stjórnarskrá. Einstaka lögmenn hafa einnig sagt að þjóðlendulögin væru brot á stjórnarskránni og sumir hverjir hafa kallað kröfugerðir ríkisins grimmar. Þjóðlendumálið hefur valdið bændum og landeigendum tjóni í viðskiptum með jarðir, það er mikilvægt að hafa það í huga; þær féllu í verði og sala þeirra væri erfið í þeim tilvikum þar sem ríkið gerði stórar kröfur til þjóðlendna.

Síðan er það einnig efni í sérstaka umræðu hvers vegna mismunun ríkti í kröfugerð ríkisins eftir svæðum. Þess eru dæmi að landeigendur hafi samkvæmt öllum heimildum átt jörð í rúm 600 ár og engin dæmi voru um að gerðar hefðu verið athugasemdir við eignarhaldið svo vitað væri þangað til þar til ríkisvaldið kemur fram undir merkjum óbyggðanefndar með fullar hendur fjár frá skattgreiðendum til að standa straum af endalausum málaferlum gagnvart bændum og að farið var að vefengja slíkar heimildir.

Bændasamtökin gerðu ekki athugasemdir við lögin á sínum tíma en upphaflegi tilgangur þeirra var, eins og áður segir, að ríkið tæki upp svokallaðar einskismannsjarðir. Ráðamenn gáfu þau loforð í upphafi að ekki yrði gengið á þinglýstar eignir bænda. Annað kom síðan í ljós og má þar nefna þegar úrskurðað var bændum í hag gegn ríkinu, bæði hjá óbyggðanefnd og í Héraðsdómi Austurlands. Ríkið áfrýjaði síðan til Hæstaréttar þar sem rétturinn taldi að þinglýsing bænda væri ekki sönnuð að fullu.

Ég leyfi mér að fullyrða, herra forseti, að þetta var ekki vilji löggjafans á sínum tíma. Það var ekki lagt upp með svona aðför að þinglýstum jarðeignum bænda. Bændasamtökin eru því ekki par hrifin af þessum vinnubrögðum óbyggðanefndar í dag og ályktuðu á þann veg að þau myndu styðja við bakið á þeim sem myndu áfrýja til Mannréttindadómstólsins, enda alveg ljóst að í sumum málum var sönnunarbyrði hreinlega snúið við. Einstök sveitarfélög hafa einnig ályktað um hörkuna í vinnubrögðum óbyggðanefndar. Það hafa auk þess verið haldnir stórir fundir á vegum bænda um kröfu ríkisins, eins og í Austur-Skaftafellssýslu og á fleiri stöðum. Þar lýstu ráðherrar og þingmenn því yfir að ef þinglýstar eignir yrðu teknar af mönnum myndu þeir breyta þjóðlendulögunum. Það var hins vegar ekki staðið við það og það hafa þeir ekki gert og ekkert var að marka slíkar yfirlýsingar. Á fundinum var því haldið fram að kröfugerð óbyggðanefndar fyrir hönd ríkisins hefði farið algjörlega úr böndunum og væri í engu samræmi við það sem þjóðlendulögunum var ætlað. Þingmenn viðurkenndu þetta en gerðu ekkert í málinu.

Þetta mál snýr ekki bara að bændum eða landeigendum heldur snýr það að því að hér er um stjórnarskrárvarinn eignarrétt að ræða, þinglýstan eignarrétt sem ríkisvaldið fór síðan að vefengja. Það gerist ekki í hinum vestræna heimi en það gerðist á Íslandi og hvað sjávarjarðirnar varðar sem óbyggðanefnd hefur nú snúið sér að þá hafa verið færð óyggjandi rök fyrir því að svæðið innan netlaga tilheyri viðkomandi jörð og sé hluti hennar. Jafnframt eru afar sterk rök fyrir því að jarðirnar eigi hlutdeild í auðlindinni utan netlaga. Landhelgi Íslands er miðuð við stórstraumsfjörumál. Því eru eignarlönd jarða ótvíræður hluti af sameiginlegri auðlind sjávarins. Auk þess fer verulegur hluti af uppeldi ýmissa nytjastofna fram á grunnsævi innan netlaga og skapar þar með tilkall til ítaka við nýtingu, enda er hafið og lífríki í því á hreyfingu milli netlaga og ytra svæðis. Ýmis þekkt fiskimið tilheyra ávallt tilteknum jörðum, enda var útræði eða heimræði sérstakur matsliður í fasteignamati.

Óbyggðanefnd hefur í sumum málum gengið lengra í kröfum um sönnunarreglur en almennt gildir og lagt svo þunga sönnunarbyrði á landeigendur að það er brot á bæði meðalhófsreglu og jafnræðisreglu. Það að ríkið skuli vera að gera kröfur með þessum hætti og hreinlega taka land af landeigendum sem þeir eiga þinglýst minnir á aðferðir í fyrrum ráðstjórnarríkjunum. Það verður að halda því til haga hér að það er samdóma álit bænda að ríkið hafi beitt mikilli hörku í þjóðlendumálunum almennt, enginn hafi búist við þessari hörku af hálfu ríkisins.

Það er ekki bara á vegum óbyggðanefndar sem hið opinbera hefur verið að vefengja þinglýstar eignarheimildir bænda, það má einnig nefna Landgræðsluna. Hún hefur t.d. verið að sækja að bændum í Meðallandi sem hafa þinglýstar heimildir fyrir sínum jörðum. Ég þekki dæmi þess að bændur í Meðallandi hafi keypt jörð sem var um 5.000 hektarar þegar þeir greiddu fyrir hana á sínum tíma og nú hefur Landgræðslan til skoðunar að hefja mál gegn þeim og telur þessa ágætu bændur einungis eiga 400 hektara af þessum 5.000. Það er því umhugsunarefni á hvaða vegferð ríkisvaldið er almennt þegar kemur að landamálum. Svo vitum við það öll að ríkið er nú ekki besti landeigandinn.

En svona að lokum, herra forseti, þá er nú mál að linni hvað þessa óbyggðanefnd varðar. Það á að leggja hana niður á næsta ári og ég ætla að vona að það verði sannarlega þannig. Það hefur nú áður staðið til að leggja þessa nefnd niður. Hún átti nú einungis að starfa í nokkur ár þegar hún var sett á laggirnar fyrir 26 árum. En þjóðlendumálin eru komin út fyrir allt sem lagt var upp með í upphafi, ég held að það sé mikilvægt að hafa það í huga. Það sama á við um kostnaðinn fyrir skattgreiðendur. Þannig að ég vona svo sannarlega að ríkisvaldið hafi lært af þessari vegferð sinni og ég fagna því að þetta frumvarp liggi hér fyrir og við sjáum fyrir endann á þessari vegferð, sem því miður hefur ekki gengið eins og lagt var upp með í upphafi.