154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

737. mál
[16:49]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi vekja athygli hv. þingmanns á því að þó að ég þekki ekki til þess að það sé einhver hæstaréttardómur um eyjar, hólma og sker þá er til hæstaréttardómur frá byrjun þessarar aldar, fyrsta áratug hennar, um réttindi eigenda sjávarjarða út í netlög og hvernig löggjöf ríkisins um fiskveiðistjórn kemur og nær inn fyrir netlög. Þannig er að eiganda sjávarjarða er auðvitað heimilt að veiða fisk innan sinna netlaga en um leið og hann ætlar að hagnýta hann og selja hann þá kemur ríkið og setur hann í fangelsi. Þetta var auðvitað mjög sérstök takmörkun á eignarrétti en þessi dómur sýnir fram á að ríkisvaldið gat sett löggjöf um ráðstöfun og nýtingu auðlinda sjávar sem væri almenningur og þurfti ekki að slá eign sinni á hafsvæðið með beinum hætti. Það er með þessar valdheimildir.

Það verður líka að koma inn á eitt atriði, af því að spurt er um það, varðandi eyjar, hólmar og sker og hversu sérstakt það er að ríkið fari ekki og skoði afsöl eða vandi sig ekki í kröfugerðinni. Það má hafa áhyggjur af því sem mér var bent á eitt sinn af dómara í héraðsdómi, sem varaði við því að ríkið gæti snúið við sönnunarbyrðinni með þessum hætti, að ef það væri eitthvað óljóst í eignarskjölunum þá ætlaði ríkið að stinga sér inn í það og segja: Þú getur ekki sannað að þú eigir þetta og þess vegna ætla ég að eiga þetta. Áður fyrr var pappír dýr og blek var dýrt og menn voru ekki að skrá niður það sem var augljóst, menn spöruðu það við sig. Það kann að vera að einhver eignaskjöl á eyjum, hólmum og skerjum séu óljós af því að það var algjörlega augljóst hvernig eignamörkin voru. Menn þurftu ekki að skrá það niður, það var algjörlega augljóst. Þess vegna, enn og aftur, erum við að vara við þessari málsmeðferð, leggjum til þessa breytingartillögu og að þessari málsmeðferð verði hætt.