154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

húsaleigulög.

754. mál
[16:26]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum aðeins breytt Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem er auðvitað einn tekjupóstur sveitarfélaga í mörgum tilvikum. Yfirleitt var jöfnunarsjóður til að halda undir þar sem var íbúafækkun eða eitthvað slíkt en fyrir nokkrum árum voru sett inn ákvæði sem tóku aðeins á þessum vexti, hraða vexti, og hjálpuðu þeim sveitarfélögum sem ellegar var svolítið refsað í því kerfi áður. Það voru einmitt viðbrögð, held ég, kerfisins við að hjálpa til við þetta.

Hv. þingmaður nefndi frumvarpið og erlendan samanburð. Ég ætla að halda því fram, og hélt því fram í lok ræðu minnar, að þetta frumvarp muni hjálpa til við að búa til þetta húsnæðisöryggi, búa til betri stöðu sambærilega við það sem við þekkjum til að mynda á öðrum Norðurlöndum. Það er þannig að þeir leigjendur sem eru á markaði í dag og eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað, sem er þá 40% eða yfir — sá hópur er allt of stór. Sá hópur í dag á leigjendamarkaði sem telur sig vera í mestu öryggi eru þeir sem búa við leigu óhagnaðardrifinna félaga. Við erum að byggja upp slíkt kerfi. Við erum komin með um og yfir 6.000 íbúðir í því kerfi, þ.e. annars vegar almennra íbúða og hlutdeildarlána, fjármagnaðar, og tæpar 6.000 sem eru tilbúnar og fólk býr í þannig að á örfáum árum erum við komin vel af stað. Það kemur í ljós í þessari vinnu sem við erum í hér og við erum að reyna að koma þessum hlutum sem menn upplifa með öruggri leigu hjá óhagnaðardrifnu félagi (Forseti hringir.) út á hinn almenna markað með sterkari hætti. Ég held að það muni takast verði þetta frumvarp að lögum.