154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

hækkun stýrivaxta og áhrif þeirra á verðbólgu.

[10:51]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Þó að verðbólgan hér hafi ekki verið drifin áfram af orku- og matarverði þá var hún drifin áfram af húsnæðiskrísu og fákeppni og það er í raun alveg sambærilegt. Það er óhætt að segja að Joseph Stiglitz hafi staðfest allan málflutning minn og þeirra sem hafa mótmælt þessu vaxtabrjálæði Seðlabankans frá því að hækkunarferlið hófst. Seðlabankinn var hreinlega flengdur. Ég veit ekki hversu oft ég hef bent á að verðbólgan á Íslandi er ekki heimilum landsins að kenna og það myndi ekki skila neinu að leggja allar þessar byrðar á þau nema að festa þau í langvarandi kreppu.

Ég hef einnig bent á hvernig þessar vaxtahækkanir frysta nær algerlega uppbyggingu á húsnæðismarkaði, en þá kom í ljós að það var sérstakt markmið Seðlabankans að draga úr uppbyggingu á húsnæði þrátt fyrir viðvarandi húsnæðisskort, svo fáránlegt sem það er. Ég hef einnig mjög oft bent á að fyrirtæki myndu að sjálfsögðu velta þessum aukna vaxtakostnaði beint út í verðlagið og auka þannig verðbólguna. Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa fyrir löngu snúist upp í andhverfu sína og aðgerðir hans gegn verðbólgunni eru miklu, miklu verri en verðbólgan sjálf. Spurningin er hins vegar: Hver ætlar að axla ábyrgð á gjörðum Seðlabankans (Forseti hringir.) og hver ætlar og hvernig á að bæta heimilunum þetta gríðarlega tjón (Forseti hringir.) sem þau hafa orðið fyrir? Og ætlar hæstv. efnahagsráðherra að sjá til þess að snúið verði af þessari villubraut strax áður en skaði heimilanna verður meiri, (Forseti hringir.) enda virðist þetta byggja mest á tilfinningu?