154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

Samkeppni og neytendavernd.

[11:40]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Samkeppnisreglur ESB og EES-svæðisins eru gríðarlega mikilvægar í þessu samhengi þegar við horfum til íslensks samkeppnismarkaðar. Mikilvægt er að skaðabótatilskipun ESB verði innleidd sem allra fyrst og vonandi verður hún afgreidd í sameiginlegu EES-nefndinni sem allra fyrst. En ég veit þó að dómstólar líta til meginreglna þeirra tilskipunar. En það breytir því ekki að það er mikilvægt að hún komi inn í íslenska löggjöf sem allra fyrst. Lítill markaður, örlítill markaður kallar á strangari reglur en í öðrum ríkjum vegna þess að lítill markaður getur í eðli sínu verið fákeppnismarkaður og einokunarmarkaður. Við getum horft á vöruflutninga til landsins, vöruflutninga innan lands, íslenskan bankamarkað, tryggingamarkað, leigumarkað og matvörumarkaði. Það er gríðarlega mikilvægt núna á þessum tíma að við horfum á íslenskan bankamarkað og vöruflutninga til landsins. Þetta samráð sem hefur átt sér stað á undanförnum árum og hefur leitt til gríðarlegra sekta á hendur Samskipum er algerlega óásættanlegt. Við þurfum að taka til á þessum markaði og gefa tækifæri þannig að nýir aðilar geti komið inn á markaðinn. Það sama á við fjölmiðlamarkað. Nýjungar á íslenskum fjölmiðlamarkaði munu einungis koma fram með jafnræði og með því að íslenskir aðilar, íslenskt einkaframtak, geti komist inn á íslenskan fjölmiðlamarkað. Það er þannig sem það verður framþróun á markaðnum. Það verður ekki í gegnum ríkisstofnunina RÚV, svo mikið er víst.

Ég get tekið dæmi frá Bandaríkjunum. Hver man ekki eftir fyrirtækinu IBM, sem var algjör risi fyrr á tímum? Það var þannig að bandarísk stjórnvöld fóru í mál við IBM. Þá var ungur maður sem hét Bill Gates sem var verktaki fyrir hugbúnað hjá IBM, hann fékk leyfi til að selja þennan hugbúnað til þriðja aðila og við þekkjum öll Microsoft og hvar hann Bill Gates stendur í heiminum. Heimurinn er ekki hinn skilgreindi markaður á Íslandi. Það er Ísland sem er hinn skilgreindi markaður þegar við horfum á samkeppnislögin. Það á líka við um íslenskan sjávarútveg. Það er markaðurinn hérna á Íslandi, að Íslendingar, íslenskir sjómenn, geti tekið þátt í því að veiða við gjöfulustu fiskimið landsins. (Forseti hringir.) Það er þannig sem við eigum að horfa á þetta. Grundvallaratriðið er aðgengi að markaðnum, (Forseti hringir.) aðgengi að hinum íslenska markaði og að einstaklingar og fyrirtæki geti komið með nýjar hugmyndir inn á markaðinn og nýjar vörur.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)