154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dýrasjúkdómar o.fl.

483. mál
[12:12]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. framsögumanni, Þórarni Inga Péturssyni, fyrir góða ræðu um mikilvægt mál. Það er einmitt hlutur sem við þurfum að hafa í huga þegar dýr eru að deyja á bóndabýlum og annars staðar að við séum að ganga rétt frá. Það hafa einmitt komið margar sögur síðustu ár, t.d. um miltisbrand sem hefur fundist og ýmislegt annað vegna þess hvernig gengið var frá hlutum í gamla daga. Það er þó ekki alveg eins slæmt eins og á Svalbarða þar sem þeir finna fólkið frosið með spænsku veikina. En það er þetta sama, við þurfum að hugsa um það að eftir einhvern tíma getur ýmislegt komið upp.

Mig langaði í fyrra andsvari mínu að spyrja hv. þingmann, þar sem hann er nú einmitt bóndi og hefur góða yfirsýn yfir þessi mál: Hvernig er staðan í raun á þessum málum í dag? Er meira og minna allt saman bara grafið í jörðu einhvers staðar eða eru sveitarfélög almennt með einhvers konar leiðir, gáma eða eitthvað til að henda hræjunum í, eða hver er staðan í dag svona út frá reynslu hv. þingmanns?

Ég er sammála því að þetta frumvarp muni svo sannarlega leiða til betra ástands, en það mun væntanlega taka einhvern tíma að komast þangað. En hvernig er svona almennt ástandið í dag út frá reynslu hv. þingmanns?