154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

framkvæmd EES-samningsins.

581. mál
[16:06]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Við erum búin að eiga fína umræðu hér í dag um skýrslu utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins. Ég ætla rétt að hlaupa á mikilvægi EES-samningsins fyrir okkur Íslendinga og bara út frá hagsmunum atvinnulífsins, kannski svona megin meginatriðum. Það blæs ekki endilega byrlega fyrir öryggismálum í Evrópu og ástandið er að mörgu leyti erfitt. Það hefur áhrif mjög víða, m.a. inn í EES-samninginn, Evrópusambandið og hvernig við erum að takast á við hlutina innan Evrópu í dag. Auðvitað hefur þetta haft mikil áhrif á samkeppnishæfni Evrópu; stríð í Úkraínu, Covid, aðfangakerfið rofnar og miklir erfiðleikar víða. En meira af því á eftir.

Það sem mér finnst mikilvægt svona út frá öryggishagsmunum, það hefur ekki verið minnst á það hér í dag en er aðeins komið inn á í þessari ágætu skýrslu, ítarlegu skýrslu, eru fjarskipti um gervihnetti, að tryggja fjarskiptakerfi, að við getum haft nokkuð öflug fjarskipti um gervihnetti þó að þeir muni aldrei anna því sem við þekkjum í dag með sæstrengina og fjarskiptastrengina. En í gegnum EES-samninginn er verið að vinna í tengslum við Evrópusambandið að fá aðgengi að betri fjarskiptum. Það skiptir verulegu máli fyrir Ísland ef upp kemur sú staða að sæstrengirnir eða fjarskiptastrengirnir virki ekki.

Eins og komið hefur fram hér í dag er mikilvægt að efla málefnalega umræðu um mikilvægi EES-samningsins á Íslandi. Það hefur oft verið töluverður hávaði í kringum EES-samninginn en við þurfum virkilega að efla málefnalega og góða umræðu um mikilvægi samningsins eins og hefur komið fram. Þessi samningur hefur raunverulega gjörbreytt lífsskilyrðum á Íslandi á þessum 30 árum sem hann hefur verið í gildi og hann er auðvitað langmikilvægasti viðskiptasamningur þjóðarinnar.

Hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir kom hér áðan inn á hagsmunagæslu varðandi þennan samning úti í Brussel. Sjálfstæðisflokkurinn tók náttúrlega stór og mikilvæg skref — ætli það hafi ekki verið í fjárlagaumræðunni í desember 2019 sem var samþykkt að bæta við 230 milljónum í þessa hagsmunagæslu og henni var þá gjörbreytt. Eins og kom fram hjá hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur hér áðan þá var því hætt í aðildarviðræðunum á sínum tíma að gæta hagsmuna við Evrópusambandið þannig að það var hátt í áratugur þar sem þessara hagsmuna var ekki gætt og auðvitað var það mjög slæmt fyrir okkar hagsmuni.

Það var gerð skýrsla, ég óskaði eftir henni ásamt fleiri þingmönnum hérna fyrir nokkrum árum, um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það var fróðlegt og mikið rit sem var skrifað og gott fyrir þessa umræðu. En það sem kom fram áðan í máli hæstv. utanríkisráðherra og ég held að við ættum að skoða, og ég mun örugglega skoða það á næstu dögum, er að koma með skýrslubeiðni um að hér verði unnin svipuð skýrsla var unnin og kynnt í Noregi um EES-samninginn og hagsmuni fyrir norskt samfélag. Það kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra að þar er talið að landsframleiðslan í Noregi sé 5–6% hærri vegna þessa samnings. Það er umtalsvert og kemur náttúrlega fram í lífsskilyrðum Norðmanna.

Það væri þá fróðlegt að sjá hvað þetta þýðir fyrir okkur vegna þess að það er lítið rætt um það. Ég hef öðru hvoru tekið þessa umræðu í gegnum tíðina, um áhrif EES-samningsins, t.d. á stóriðju á Íslandi. Það er ekkert almennt í umræðunni þegar við ræðum hagsmuni af þessum samningi að EES-samningurinn er grundvallarforsenda fyrir stóriðju á Íslandi. Við losnum við að borga 6–7% toll af íslensku afurðum af stóriðju á Íslandi og í grein eins og álframleiðslu, þar sem er ekki endilega há framlegð, þá munar það öllu að svo sé.

Við sjáum það núna í þessu samhengi, ársfundur Landsvirkjunar var haldinn núna fyrr í vikunni. Það er geysilega mikill hagnaður af orkuvinnslunni hjá Landsvirkjun, um 50 milljarðar á síðasta ári og arðgreiðslur til ríkisins fyrir 2023 eru 21 milljarður, ef ég man rétt. En þetta snýr líka að öryggi Evrópu og þá erum við kannski komin inn í það sem er hluti af þessum EES-samningi, og við erum að tryggja viðskiptakjör og annað, að það eru miklir erfiðleikar í Evrópu varðandi orkumálin. Samkeppnishæfni og verðmætasköpun víða í Evrópu á gríðarlega mikið undir því að orkuverð hefur hækkað mikið og við erum kannski þannig orðin samkeppnishæfari hér á landi með okkar orkuverð. Þó að það hafi hækkað töluvert þá skiptir það verulegu máli innan öryggismála innan Evrópu, þar sem flest ríki eru í NATO, að halda uppi öflugri framleiðslu í Evrópu á öllum sviðum. Þannig tryggjum við lífskjör í Evrópu til lengri tíma.

Það kom líka fram á ársfundi Landsvirkjunar núna fyrr í vikunni að árið 2000 voru 38 starfandi álver í Evrópu en í dag eru þau 21. Það er þessi punktur sem er verið að tala um, að Evrópa verður að halda áfram að framleiða. Þetta alvarleg þróun sem orðin, en álver og stóriðja og framleiðsla iðnfyrirtækja í Evrópu hefur átt í gríðarlegum erfiðleikum núna á undanförum misserum út af háu orkuverði. Þess vegna skiptir EES-samningurinn miklu máli hjá okkur, þ.e. vegna tollfríðinda innan samningsins.

Hinn þátturinn sem ég myndi líka vilja halda á lofti þegar við ræðum um hagsmuni, er flugið. Open Skies-samningurinn — frú forseti, ég man ekki hvort það er til íslenskt yfir þetta, en það er samningur sem var gerður milli Kanada, Bandaríkjanna og Evrópusambandsins 2009 um frjáls flug á milli þessara heimsálfa. (Gripið fram í: Open Sky?)— Open Skies. Við göngum inn í þetta í gegnum EES-samninginn 2011 og að mínu viti væri mjög áhugavert — ég hef reynt að nálgast þessar upplýsingar og ég held að það sé grundvallarmál varðandi íslenska hagsmuni sem snúa að fluginu. Eins og við þekkjum er flugreksturinn gríðarlega stór þáttur í okkar landsframleiðslu, hvergi meiri í hinum vestræna heimi. Við komum inn í þetta 2011. WOW air er stofnað skömmu síðar og Icelandair tekur mikinn kipp.

Svo þekkjum við þessar tölur úr íslenskri ferðaþjónustu til 2010: 500.000 erlendir ferðamenn til landsins, sem fara síðan yfir tvær milljónir núna síðustu ár að undanskildum Covid-árunum. Þannig að það er mikil fylgni og síðan núna síðast í gegnum EES-samninginn þar sem við verðum aðilar að Flugöryggisstofnun Evrópu, sem er geysilega mikilvægt, geypilega mikilvægt fyrir íslenskt flug og starfsemi vegna þess að við gætum aldrei sem lítil þjóð tekist á við það verkefni að halda öllu í gangi sem snýr að því að tryggja flugöryggi og flugöryggismálin í slíkum flóknum iðnaði. En í gegnum Flugöryggisstofnun Evrópu fáum við það tækifæri að vera með þar sem kannski öflugasta starfsemin er á þessu sviði í heiminum, sem nýtist okkur síðan mikið í íslenskum flugrekstri og þar með atvinnulífi. Þannig að þetta eru kannski tveir þættir innan ESA sem er hægt að benda á.

Þetta er svona það sem er auðvelt að benda á, en væri mjög fróðlegt að óska eftir skýrslubeiðni nákvæmlega um þetta, hagsmuni Íslands af EES-samningnum og hvað þetta þýðir — það er ekkert hægt að neita því að maður hefur oft kannski verið neikvæður gagnvart EES-samningnum í gegnum tíðina. En þegar maður fer að velta fyrir sér einstökum þáttum og grafa sig inn í það sem snýr að hagsmunamati fyrir Íslendinga — það væri bara gott fyrir okkur að taka reglulega umræðu um, byggða á rökum og tölum hvaða hagsmunir eru undir fyrir íslenskt samfélag vegna þess að þeir eru geipilega miklir, er ég fullviss um.

Þess vegna held ég að það hafi verið mjög stórt og mikilvægt atriði sem hefur verið minnst á hér í dag, þessi aukna hagsmunagæsla, ég held hún hafi skilað virkilega miklu eins og sýndi sig varðandi flugið og ETS-ið núna á síðasta ári og var mikil vinna unnin á síðustu árum, að þessi hagsmunagæsla sé á þessum stað sem hún er og það hjálpar okkar samfélagi mikið.