154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

slit ógjaldfærra opinberra aðila.

705. mál
[16:38]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna. Þegar ég las nafn þessa máls, frumvarp til laga um slit ógjaldfærra opinberra aðila, varð mér hugsað til þess að íslenska ríkið hefur aldrei verið ógjaldfært, aldrei í sögu sinni. Íslenska ríkið hefur alltaf staðið við skuldbindingar sínar. Hér er vissulega um mistök fortíðarinnar að ræða en hér er íslenska ríkið hins vegar að spara sér útgjöld og það eru háar fjárhæðir, 478 milljarðar kr. sem eru skuldbinding ÍL-sjóðs sem er klárlega vegna gríðarlegra mistaka við skuldabréfaútgáfu á sínum tíma.

Það sem mér leikur hugur á að vita og spyrja hæstv. ráðherra að er: Væri ekki rétt að ljúka samningaviðræðunum við lífeyrissjóðina, að íslenska ríkið klári þær viðræður og nái fram samningum við lífeyrissjóðina til að komast út úr þessu máli með sómasamlegum hætti án þess að leggja þurfi fram frumvarp og samþykkja lög um slit ógjaldfærra opinberra aðila? Ég get ekki séð að ef hluti íslenska ríkisins verður ógjaldfær falli það ekki á ríkissjóð, ég bara get ekki séð það. Það er bara eins og ef hægri höndin á mér myndi detta af, eða ég yrði lamaður á hægri höndinni, þá er hún samt hægri höndin á mér. Það mætti taka hana af og kasta henni en hún yrði samt hægri höndin mín. Það er ekki hægt að segja að vinstri löppin sé ógjaldfær á búknum þegar við horfum á ríkið. Hluti ríkisins getur ekki orðið ógjaldfær, svo að það liggi fyrir.

Annað sem mig langar að spyrja um er varðandi það ef um er að ræða eignarnám eða eignaupptöku og skaðabótaskyldu, hvort ríkið óttist ekki að málið myndi enda fyrir Mannréttindadómstól Evrópu þar sem er eignarréttarákvæði, þótt veikt sé, þar sem það er í I. viðauka við samninginn, (Forseti hringir.) og íslenska ríkið yrði dæmt í þjóðarétti fyrir að hafa brotið mannréttindi sem felast í eignarrétti.