154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

slit ógjaldfærra opinberra aðila.

705. mál
[16:48]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé að sönnu eitt stærsta málið á þessu kjörtímabili um það hvernig ríkissjóður Íslands eigi að taka á málefnum ÍL-sjóðs og kröfum sem hljóða upp á 478 milljarða kr., sem er gríðarlega há fjárhæð. Fjárlög íslenska ríkisins á hverju ári eru um 1.500 milljarðar þannig að við erum að tala um einn þriðja af fjárlögum ríkisins á hverju ári, einn þriðja. Það sem er líka undir hér er orðspor íslenska ríkisins og ríkissjóðs sem hefur aldrei orðið ógjaldfær. En við erum hins vegar með frumvarp um slit ógjaldfærra opinberra aðila. Ég verð að segja alveg eins og er, eins og ég skil ríkisvaldið og ríkið — vissulega nær frumvarpið líka til sveitarfélaga, en þetta frumvarp er um ÍL-sjóð. Það er alveg klárt mál. Það skiptir engu máli í hvaða form frumvarpið er sett og þótt verið sé að gera frumvarp sem nái almennt til allra stofnana og fyrirtækja ríkisins og sveitarfélaga þá er þetta frumvarp um ÍL-sjóð og engan annan aðila. Ef hluti af íslenska ríkinu verður ógjaldfær á ríkið að bera ábyrgð á því. Það er þannig sem kerfið virkar. Ef ÍL-sjóður verður ógjaldfær ber íslenska ríkið ábyrgð á skuldbindingum hans og þar með þessum skuldabréfum. Við skulum rétt vona að viðræður lífeyrissjóðanna við ríkissjóð ljúki á farsælan hátt. Lífeyrissjóðirnir eru helstu kröfuhafar á þessum bréfum ÍL-sjóðs en ekki einu kröfuhafarnir, mér skilst að það séu líka erlendir kröfuhafar og einkaaðilar. Ef viðræðunum lýkur á farsælan hátt færum við líka að ljúka þessu gagnvart öðrum kröfuhöfum svo að þeir fari ekki í mál á hendur íslenska ríkinu fyrir íslenskum dómstólum og jafnvel á erlendri grundu, þá fyrir brot á 1.gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem ver eignarréttinn sem mannréttindi, sem eru grundvallarmannréttindi í markaðshagkerfi og í kapítalískum samfélögum.

Ég held að hér sé um frumvarp að ræða þar sem við þurfum að stíga mjög varlega niður. Þetta getur haft áhrif á orðspor íslenska ríkisins til frambúðar. Ef skuldabréfamarkaðir úti í heimi frétta það að íslenska ríkið standi ekki við skuldbindingar sínar, einfalda ábyrgð á skuldabréfum, kann það ekki góðri lukku að stýra og getur meira að segja orðið dýrkeypt þar sem þá kæmi álag á íslenska ríkið og það yrði metið af matsfyrirtækjum sem slíkt.

Ég get ekki annað en skorað á hæstv. fjármálaráðherra að klára viðræðurnar við lífeyrissjóðina áður en þetta kemur út úr nefnd, áður en Alþingi tekur ákvörðun sem heimilar slit ógjaldfærra opinberra aðila. Ég get varla séð að það gangi rökfræðilega upp að hluti ríkisins verði ógjaldfær, það lendir á íslenska ríkinu á endanum. Ég á eftir að sjá það fara fyrir dómstóla, sem ég vona að gerist ekki, ef íslenska ríkið ætlar að koma sér undan að standa við skuldbindingar samkvæmt þessu skuldabréfaútboði sem var minnir mig árið 2004 eða 2005, a.m.k. fyrir hrun, og var samþykkt á allt of háum vöxtum sem voru fastir vextir á þeim tíma. Eftir það fóru bankarnir inn á fasteignamarkað til að fjármagna hann og fóru með lægri vexti inn á fasteignamarkaðinn. Ef ég man rétt var Kaupþing með 5,15% vexti sem voru lægri en hjá ÍL-sjóði eða Íbúðalánasjóði. Þetta var á þeim tíma þegar íslenska ríkið rak húsnæðisbanka sem hét Íbúðalánasjóður, sem það gerir ekki í dag og tel ég það mjög rökrétt og átti þetta fyrir löngu síðan að vera komið til bankanna.

Ég set stórt spurningarmerki við þetta frumvarp og óttast að verið sé að reyna að komast hjá því að íslenska ríkið standi við skuldbindingar sínar, sem gæti varðað 72. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almannaþörf krefji. Við getum sagt að það sé almannaþörf að sleppa við að borga 478 milljarða en það breytir því ekki að það má dreifa því á mörg ár og íslenska ríkinu ber að greiða samkvæmt þeim skuldabréfum sem það gengst í ábyrgð fyrir, jafnvel einfalda ábyrgð. Hér á að fara að gjaldfella skuldabréfin, gera þau upp til að sleppa við að greiða vexti fram í tímann. Við erum hins vegar að fara inn í hávaxtatímabil. Við erum að koma úr mjög óvenjulegum tíma þar sem hafa verið 0% vextir og meira að segja neikvæðir raunvextir og ég minni á að í dag eru stýrivextir 9,25% og því er auðvelt að ávaxta pund sitt á Íslandi með hærri vöxtum en samkvæmt þessum skuldabréfum. Þó að það sé ekki það sama erlendis þá ætti að vera hægt að ná samningum við lífeyrissjóðina um að þessi bréf haldi áfram lífi sínu eða um að endurfjármagna þau þannig að vextirnir yrðu í samræmi við það hávaxtatímabil sem við erum komin inn í.

Ég óttast að þetta sé upphafið á því að lífeyrissjóðirnir og aðrir kröfuhafar á bréfum ÍL-sjóðs fari í skaðabótamál fyrir dómstólum sem yrði mjög þungt fyrir ríkið að verjast, tala nú ekki um ef það færi til Strassborgar, til Mannréttindadómstóls Evrópu, vegna þess að ef verið er að brjóta á eignarrétti þegar kemur að viðskiptabréfum þessara skuldabréfa er mjög erfitt að sjá fyrir sér að Mannréttindadómstóll Evrópu muni segja að það sé ekki brot. Ég get ekki séð það fyrir mér þegar horft er á tegund þessara skuldbindinga. Raunin er sú sama hjá Hæstarétti Íslands þó að hann hafi verið ótrúlega hliðhollur íslensku fjármálakerfi og jafnvel ríkinu, má þar t.d. nefna dóma varðandi uppgreiðsluálag á skuldabréfum og gengistryggingardómana. Húsnæðislántakendur og aðrir lántakendur á bifreiðum og öðru gátu gengistryggt lán sín, bundið þau við gengi erlendra mynta, sem var það eina refsiverða í lögum um vexti og verðtryggingu. Það var samt gert. Það mátti vísitölutryggja lánin við neysluvísitölu en það var engin heimild til að gengistryggja þau eins og gert var í tugþúsunda tali. Það var dæmt ólöglegt í héraðsdómi og líka í Hæstarétti. En síðan kom annar dómur í Hæstarétti sem sagði að það hefði verið forsendubrestur og þá var ákveðið með öll þessi bréf, þann hluta sem var dæmdur ólöglegur — 36. gr. samningalaga segir að það eigi að fella þann hluta niður. Þá fann Hæstiréttur það upp að það ætti setja lægstu vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður í staðinn. Það var aldrei samið um það. Ég átti sjálfur svona skuldabréf í jenum sem fór úr 4 milljónum í 12 milljónir og aftur í 4 milljónir, en þá fékk ég að vita að það væri komið annað vaxtastig, að Hæstiréttur Íslands væri búinn að ákveða að lægstu vextir Seðlabanka Íslands væru komnir á bréfið. Ég samdi aldrei um það en þeir sömdu um það fyrir mig. Þannig er nú Hæstiréttur.

En við skulum sjá hvað gerist. Ég tel ekki óþarfa að fara nánar yfir þetta. Þetta er í grunninn einfalt mál og ég vonast til að það fái góða meðferð í efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég á ekki sæti í. Ég held að orðstír íslenska ríkisins, ef það ætlar að fara þessa leið, geti beðið mikinn hnekki og að þetta geti falið í sér skaðabótaskyldu og jafnvel brot á mannréttindasáttmála Evrópu, ef ekki 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Við skulum vona að viðræður fjármálaráðherra við lífeyrissjóðina gangi vel og þeim ljúki sem allra fyrst svo að við þurfum ekki að hafa í lagasafni Íslands lög um slit ógjaldfærra opinberra aðila, sem taka til stofnana og fyrirtækja ríkisins og sveitarfélaga. Ef stofnanir ríkisins fara á hausinn, verða ógjaldfærar, á ríkissjóður Íslands að borga. Það er reglan og hefur alltaf verið. En þarna virðist vera farið inn á hugmyndafræði eða hugmyndaflug sem er komið ansi langt út fyrir það hvernig allir skilja ríkisvaldið. Ég get ekki séð að hluti ríkisvaldsins, stofnanir ríkisins, geti farið á hausinn. Við höfum almenn gjaldþrotalög þar sem væri hægt að gera upp þann hluta en það myndi alltaf falla á ríkið á endanum. En lengi má manninn reyna og kannski verða skiptastjórar í framtíðinni að fjalla um það þegar fyrirtæki fara á hausinn. Í lögunum er vissulega fjallað um að skipuð verði slitastjórn yfir ÍL-sjóði en þá er það í fyrsta sinn sem opinber aðili fer með slitastjórn á sjóði sem er í eigu íslenska ríkisins.