154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

skýrsla um Hvassahraunsflugvöll.

[15:45]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég ætla að ræða hér aðeins um Hvassahraunsskýrsluna. Í tengslum við samkomulag sem var gert á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar, sem undirritað var í lok nóvember 2019, átti að gera skýrslu um Hvassahraunsflugvöll. Það var reiknað með að hún kæmi út innan tveggja ára. Nú eru árin orðin rúmlega fjögur þannig að spurningin er hvenær sé von á skýrslunni og efni hennar til að fara í frekari vinnu í tengslum við þetta. Ég held reyndar að nú séu flestir komnir á þá skoðun að það sé ekki raunhæft að fara í framkvæmdir í Hvassahrauni vegna þeirra eldsumbrota og jarðhræringa sem hafa átt sér stað á Reykjanesi síðustu ár. Gosin eru orðin sex á þremur árum og flestir held ég komnir á þá skoðun að þetta sé óraunhæft, að hugmyndin sé ekki raunhæf. Það má öllum vera ljóst að Reykjavíkurflugvöllur mun gegna mikilvægu hlutverki næstu árin og áratugina í tengslum við þessa stöðu sem upp er komin sem helsta samgöngumiðstöðin innan lands og varaflugvöllur. Hann er geysilega mikilvægur í tengslum við sjúkraflug í landinu, rúmlega 900 sjúkraflug á síðasta ári með hátt í 1.000 sjúklingum, og er einnig mikilvægur fyrir almannavarnir landsins. Fyrir stuttu voru kynntar hugmyndir um að hefja byggingu við austurenda austur/vestur-brautarinnar á Reykjavíkurflugvelli, í mikilli nálægð við flugbrautina. Það hefur líka komið í ljós í því samhengi að engar rannsóknir hafa farið fram á því hvaða áhrif slíkar byggingar, kannski einhverja 200 metra frá flugbrautarendanum, gætu haft á rekstur og rekstrarhæfni flugvallarins. Er þá ekki rétt að það verði líka skoðað áður en lengra er haldið, að verja flugvöllinn?