154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

Fíknisjúkdómurinn.

[16:16]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Inga Sæland spyr: Telur heilbrigðisráðherra að fíknisjúkdómurinn sé viðurkenndur sem sjúkdómur? Og ráðherra segir: Já, þetta er flókinn sjúkdómur. Ég þakka ráðherra fyrir þessa afstöðu sína vegna þess að þetta er alvörusjúkdómur. Sá sem hér stendur þekkir þennan sjúkdóm ágætlega. Ég fór sjálfur í meðferð á sínum tíma og hef kynnt mér þessi mál til hins ýtrasta, farið nokkrum sinnum á Hazelden sem er nú Mekka, ef ég má svo að orði komast, í meðferðarstöðvum og fleiri meðferðarstöðvar, Edgehill sem dæmi, og hef verið í stöðugu sambandi við þá sem eru að kljást við þennan sjúkdóm. Vandinn er að munurinn á fíknisjúkdómum og öðrum sjúkdómum er sá að sá sem er haldið þessum sjúkdómi hefur sterka tilhneigingu til þess að vilja ekki viðurkenna að hann sé veikur. Það stendur einhvers staðar í inngangsorðum AA-samtakanna: Enginn getur hætt drykkjuskap nema hann vilji það sjálfur. Það er nú vandamálið, að það þarf að fá viðkomandi sjúkling til að átta sig á því að hann sé veikur.

Síðan segir Inga: Hvaða úrræði eru til staðar fyrir einstaklinga sem hafa farið í meðferð? Þeir staðir sem eru viðurkenndir í dag eru m.a. SÁÁ, Hlaðgerðarkot og Krýsuvík og síðan er það deild 32 eða 33 á Landspítalanum. Þetta eru þessir algengu staðir og einhverjir hafa farið erlendis, ég m.a. hef gert það. En þegar fólk kemur úr meðferðinni, hvað þá? Sjáið þið, maður kemur út úr meðferðinni eftir 28 daga og tíu daga í afvötnun og þá veit maður allt um þetta og maður er alveg með það á hreinu. En svo fennir í sporin og fólk gleymir og allt í einu var þetta ekki eins slæmt og það var. Ég upplifði það á sínum tíma í fyrra skiptið sem rann af mér (Forseti hringir.) að ég var farinn að sakna þess að vera timbraður. Svo loksins þegar ég byrjaði aftur að drekka mundi ég að ég saknaði þess ekki. (Forseti hringir.) En svona er nú sjúkdómurinn hættulegur.