154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

frjósemisaðgerðir.

233. mál
[16:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Á fæðingarári hæstv. heilbrigðisráðherra voru lifandi fædd börn á hverja konu rúmlega fjögur. Í dag eru þau 1,6. Þar geta aðstæður barnafjölskyldna sannarlega haft áhrif; atvinnuþátttaka og fleira ásamt minnkandi frjósemi. En á sama tíma virðist hið opinbera ekki stuðla að því að það sé aðgengilegt að komast í frjósemisaðgerðir fyrir þau sem þess þurfa. Aðgerðirnar eru ekki bara erfiðar andlega og líkamlega heldur eru þær mjög dýrar, hormónameðferð, eggtaka og uppsetning kosta sitt. Ekki virðist heldur vera sérstaklega tekið tillit til sérstöðu hópa, svo sem ungs fólks með krabbamein. Það er mér vitanlega ekki mögulegt að fá slíka meðferð á Landspítalanum eða annars staðar í opinbera kerfinu, fólk sem vill frekar fá slíka aðstoð hjá sínum kvensjúkdómalækni eða á kvennadeild Landspítalans fær hana ekki. Er fyrirtækið Livio með einkarétt á að framkvæma frjósemismeðferðir á Íslandi?

Auk þess er gjaldskráin ekki gagnsæ. Það er erfitt að átta sig á því í hverju aukinn kostnaður felst sem rukkað er fyrir. Ég get nefnt dæmi um kostnað sem aðeins lendir á hinsegin fólki en ekki á gagnkynja pörum sem glíma við ófrjósemisvanda. Gjaldið er kallað millimakagjald. Pör sem hafa neitað að borga gjaldið hafa fengið það niðurfellt en það þarf að krefjast þess því að rukkunin kemur alltaf við þessar aðstæður sem eru þannig að egg er tekið úr manneskju A og frjóvgað með gjafasæði og sett í manneskju B. Það eru engin rök fyrir því að það sé dýrara en þegar egg er tekið úr konu, frjóvgað og sett í hana aftur, að fyrirtækið rukki hið undarlega millimakagjald.

Fyrirtækið Livio má neita fólki um meðferð vegna heilsufars, en viðmiðin eru óljós og það eina sem fólk getur gert ef það fær höfnun er að kvarta við landlækni. Ef fólk telur sig verða fyrir fordómum, t.d. vegna holdafars, fötlunar eða vegna félagslegra aðstæðna eða því líkar ekki þjónustan, þá getur það ekki leitað annað.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvaða opinberir aðilar sjá um frjósemisaðgerðir á Íslandi, svo sem tæknisæðingu og glasafrjóvgun? Hvernig er eftirliti háttað með starfsemi einkarekinna fyrirtækja sem sinna frjósemismeðferðum, bæði fjárhagslegu og faglegu? Hver er niðurgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands á þjónustu einkarekinna fyrirtækja sem sinna frjósemismeðferðum og af hverju tekur niðurgreiðslan mið? Hversu mörgum einstaklingum hafa einkarekin fyrirtæki sem sinna frjósemismeðferðum sinnt síðastliðin fimm ár og hversu mörgum hefur verið synjað um þjónustu?