154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

frjósemisaðgerðir.

233. mál
[17:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Fyrst vil ég vísa slíkum fullyrðingum á bug eins og hv. þm. Hildur Sverrisdóttir fór með hér áðan, um að það sé einhver tortryggni þó að spurt sé út í þjónustu einkarekinna fyrirtækja. Ég frábið mér slíkar fullyrðingar. En það er þannig að hér á fólk ekki annarra kosta völ og getur ekki leitað annað en til þessa eina fyrirtækis sem veitir slíka þjónustu og þessi heilbrigðisþjónusta er einungis í boði fyrir þau sem geta reitt fram háar fjárhæðir. Hún er ekki aðgengileg óháð efnahag.

Þá má einnig færa rök fyrir því að fólk láti ýmislegt yfir sig ganga þar sem það er algerlega undir einu fyrirtæki komið í þessum efnum. Það getur orðið til þess að það myndist óeðlilegt samband og óeðlileg samskipti. Þess vegna er svo mikilvægt, frú forseti, að eftirlit með starfseminni sé gott; það sé eftirlit með gjaldskrá sem er gagnsæ, að krafan sé sú að gjaldskráin sé gagnsæ og að faglegu viðmiðin séu skýr, sér í lagi í ljósi þess að fyrirtækið er það eina sem veitir þessa heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þegar þannig er um búið þá þurfum við að gæta sérstaklega að því að allt sé gagnsætt, það sé auðvelt að veita eftirlit og að faglegu viðmiðin séu skýr. Ef við lítum t.d. til Danmerkur þá á fólk þar val. Þar eru bæði framkvæmdar ófrjósemisaðgerðir í opinbera kerfinu og á einkastofum. Það væri sannarlega kostur fyrir fólk ef það gæti átt eitthvert val í þessum efnum, en svo er ekki.