154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

aukið eftirlit á landamærum.

673. mál
[18:37]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Schengen-samstarfið felst í grundvallaratriðum í tvennu, annars vegar í afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-ríkja og hins vegar mótvægisaðgerðum sem felast einkum í samræmdum reglum um eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins og samvinnu lögregluliða meðal þátttökuríkjanna til að tryggja öryggi borgara innan svæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 136/2022, um landamæri, er ráðherra heimilt að taka upp tímabundið eftirlit á innri landamærum vegna alvarlegrar ógnar við allsherjarreglu og þjóðaröryggi. Ákvörðun um að taka upp slíkt eftirlit verður aðeins tekin á grundvelli áhættumats frá ríkislögreglustjóra. Þá skal umfang og tímalengd innra eftirlits ekki vera meira en nauðsynlegt er til að bregðast við ógninni. Nánar er kveðið á um tilhögun og lengd tímabundins eftirlits í reglugerð nr. 866/2017 um för yfir landamæri. Með því að taka upp slíkt eftirlit yrði ferðamönnum sem ferðast hingað til lands frá öðrum Schengen-löndum skylt að framvísa vegabréfi eða öðrum gildum ferðaskilríkjum á landamærastöð við komuna til landsins. Ekki er heimilt að taka upp tímabundið eftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins á öðrum lagagrundvelli eða forsendum en að framan greinir.

Embætti ríkislögreglustjóra hefur það hlutverk að meta hættu á landamærum og framkvæma áhættumat sem getur orðið grundvöllur ákvörðunar ráðherra um að taka upp tímabundið landamæraeftirlit. Slíkt áhættumat er framkvæmt ársfjórðungslega og þegar tilefni þykir til. Aðstæður á innri landamærum Íslands hafa ekki gefið til kynna að alvarleg ógn sé til staðar er varði allsherjarreglu eða þjóðaröryggi í skilningi laga um landamæri. Á meðan svo er og án þess að fyrir liggi áhættumat ríkislögreglustjóra um slíka alvarlega ógn hefur ráðherrann ekki heimild að lögum til að taka upp tímabundið eftirlit á innri landamærum og vegabréfaskyldu.

Í þessu samhengi er einnig vert að benda á að þau ríki sem hafa tekið upp eftirlit á innri landamærum beita því ekki gagnvart allri umferð um landamæri heldur aðeins að takmörkuðu leyti og þá í samræmi við áhættugreiningu, t.d. beita Finnar því á landamærum sínum við Rússland og Svíar beita því einkum á landamærum sínum við Danmörku á Eyrarsundsbrúnni. Kæmi til þess að tekið yrði upp eftirlit á innri landamærum hér má ætla að því yrði beitt með sambærilegum hætti, þ.e. með takmörkuðum hætti á grundvelli áhættugreiningar.

Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra hafi skoðað það að gefa fyrirmæli til flugfélaga að gæta að slíkri tímabundinni vegabréfaskyldu til Íslands við byrðingu ef af yrði. Samkvæmt 17. gr. laga um landamæri er lögð sú skylda á flugfélög að ganga úr skugga um að farþegar hafi meðferðis gild ferðaskilríki og vegabréfsáritun þegar flogið er hingað til lands frá ríkjum utan Schengen-svæðisins. Brot gegn þessari skyldu varðar refsingu samkvæmt 21. gr. laganna. Sé tímabundið eftirlit tekið upp á innri landamærum getur komið til þess að flugfélögum sé einnig skylt að gæta að vegabréfa- og vegabréfsáritunarskyldur farþega þegar flogið er hingað til lands frá ríkjum innan Schengen-svæðisins samkvæmt því sem um getur í 2. mgr. 13. gr. laga um landamæri.

Á næstunni tekur gildi ný reglugerð um fyrirkomulag og fjárhæðir sekta vegna brota flugfélaga sem flytja hingað til lands einstaklinga sem hafa ekki gild ferðaskilríki eða vegabréfsáritun. Samkvæmt reglugerðinni verður ráðherra heimilt að virkja þessa skyldu flugfélaga þegar tímabundið eftirlit er tekið upp á innri landamærum og verður þar af leiðandi einnig hægt að beita flugfélög sektum sem flytja til landsins einstaklinga sem ekki hafa gild ferðaskilríki frá ríkjum innan Schengen-svæðisins.

Samkvæmt lögum yfir landamæri og reglugerð um för yfir landamæri skal landamæraeftirlit fara fram á viðurkenndri landamærastöð. Á meðal viðurkenndra landamærastöðva er Keflavíkurflugvöllur og hefur þar verið komið upp sérstökum landamærahliðum sem allir farþegar sem koma hingað til lands frá ríkjum utan Schengen-svæðisins þurfa að fara í gegnum og framvísa gildum ferðaskilríkjum. Ekki er talið að nokkur ávinningur sé af því að færa landamæraeftirlit frá þessum skilgreindu hliðum og framkvæma það þess í stað um borð í flugvélum á Keflavíkurflugvelli. Það myndi ekki hafa nein áhrif á rétt einstaklinga til að koma hingað til lands eða beitingu valdheimilda stjórnvalda til að vísa frá einstaklingum sem ekki uppfylla skilyrði við komu hingað til lands.