154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Ísland hefur staðfest nýjan fríverslunarsamning milli Indlands og EFTA-ríkjanna, þ.e. Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss. Hér er um sögulegan tímamótasamning að ræða og samningurinn er fyrsti fríverslunarsamningurinn sem Indland undirritar við Evrópuríki. Asía er í stöðugum efnahagslegum vexti. Indland mun þar vaxa hraðast á komandi árum og í því felast mikil tækifæri sem við erum nú orðin þátttakendur í. Samningaviðræður Íslands og EFTA um fríverslunarsamninginn hafa staðið í 17 ár og hafa 20 lotur samningaviðræðna átt sér stað og viðskipti EFTA-ríkjanna og Indlands námu um 5,5 milljörðum evra á síðasta ári eða um 825 milljörðum íslenskra króna. Samningurinn kveður á um afnám tolla og annarra viðskiptahindrana. Til framtíðar getur Indland orðið einn af mikilvægari mörkuðum okkar fyrir útflutningsvörur. Samningurinn bætir markaðskjör á öllum helstu útflutningsvörum Íslands til Indlands og frá gildistöku hans munu sjávarafurðir og helstu iðnaðarvörur sem Ísland flytur út ýmist njóta fulls tollfrelsis eða umtalsverðrar tollalækkunar. Þrátt fyrir miklar takmarkanir á innflutningi á landbúnaðarvörum til Indlands tryggir samningurinn Íslandi tollfríðindi fyrir lambakjöt, vörur úr sjávarþara, drykkjarvatn og óáfenga drykki svo að eitthvað sé nefnt. Skuldbindingar sem Ísland tekur á sig varðandi markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur eru sambærilegar við fyrri fríverslunarsamninga Íslands á vettvangi EFTA og þar er að stærstum hluta um að ræða landbúnaðarvörur sem ekki eru framleiddar á Íslandi.

Herra forseti. Ég óska okkur öllum til hamingju með þennan tímamótasamning. Ég vil nota hér tækifærið til að þakka íslensku samninganefndinni fyrir þeirra mikilvægu störf og öllum þeim sem hafa komið að þessu máli síðastliðin 17 ár.