154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Á fundi hv. umhverfis- og samgöngunefndar í morgun fengum við góða gesti, fulltrúa öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, Isavia innan lands, frá Reykjavíkurborg og fulltrúa innviðaráðuneytisins, að ræða þær hugmyndir sem nú eru uppi varðandi uppbyggingu húsa við austur-vestur enda flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli í mikilli nálægð við flugbrautina. Margt fróðlegt kom þar fram. Það hefur líka komið í ljós í því samhengi að engar rannsóknir hafa farið fram á því hvaða áhrif slíkar byggingar, sem fyrirhugað er að byggja einhverja 300 m frá flugbrautarendanum, gætu haft á flugöryggi og rekstraröryggi flugvallarins. Það má öllum vera ljóst, í tengslum við stöðuna á Reykjanesskaga, að Reykjavíkurflugvöllur mun gegna mikilvægu hlutverki næstu árin og áratugina sem helsta samgöngumiðstöð innan lands og varaflugvöllur er einnig geysilega mikilvægur í tengslum við sjúkraflug í landinu. Í fyrra voru flogin rúmlega 900 sjúkraflug yfir landinu með hátt í 1.000 sjúklinga. Síðan má heldur ekki gleyma að flugvöllurinn er mikilvægur varðandi almannavarnir landsins.

Í júní 2022 samþykktum við hér í þinginu ný loftferðalög, sem eru mikill lagabálkur. Í nýjum loftferðalögum voru klár ákvæði og nokkrar greinar sem tengdust því hvernig hægt væri að verja með skilmerkilegum hætti flugvelli landsins. Ég held að það sé öllum ljóst að hér er um gríðarlega mikilvægan innvið að ræða, þjóðhagslegan innvið. Er ekki rétt að nýta líka það sem stendur í loftferðalögum í þessu máli? Það kom fram á fundinum í morgun að nú hefur ráðuneytið skipað skipulagsnefnd um Reykjavíkurflugvöll þannig að nú er reiknað með að sú vinna fari af stað, og það er ánægjulegt. En öllum er ljóst að það er mikilvægt fyrir þjóðina að hafa góða yfirsýn yfir þessi mál og við erum komin í miklar ógöngur þar sem við stöndum með þessi mál í dag.