154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

Störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Brynhildur Björnsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Meðal þess sem er í umræðunni varðandi börnin okkar þessa dagana er annars vegar íslenskan, sem mörg óttast að sé á undanhaldi, og hins vegar vanlíðan og kvíði. Mögulega helst þetta að einhverju leyti í hendur, að geta tjáð tilfinningar sínar og líðan er undirstaða andlegs heilbrigðis, sjálfstrausts og vellíðunar. Einhver kynnu að segja að íslenskan sé ekkert sérstakt lykilatriði í andlegri vellíðan því börn séu velflest talandi á ensku, en þá ber að benda á að þótt íslensk börn tali mikla ensku og jafnvel sín á milli þá eru þau ekkert endilega góð í henni á þann hátt að þau geti tjáð tilfinningar, hugsað sig í gegnum vandamál eða verið skapandi og fyndin. Öflug menningarsköpun fyrir börn og unglinga er lykilatriði til að styðja hvort tveggja íslenskuna og andlegt heilbrigði því það er margsannað að menning, bæði ástundun og neysla, bætir, hressir og kætir. En það er ekki nóg að efnið sé á íslensku heldur mætti það líka vera í meira mæli úr íslenskum veruleika. Af hverju ættu börn að vilja tala íslensku ef þeim finnst samfélagið þar sem sú tunga er töluð ekkert sérstaklega spennandi? Ef allt sem þau sjá á skjá eða lesa um í bókum gerist annaðhvort í óræðum fantasíuheimi eða í öðrum löndum? Þess vegna er svo mikilvægt að lyfta upp og búa til og styðja leikrit, bækur, bíómyndir, sjónvarps- og útvarpsefni, tölvuleiki og tónlist, alla list og sköpun og afþreyingu fyrir börn sem notar íslensku til að spegla íslenskan veruleika og gagnast ekki síður til að kynna tungumálið og samfélagið fyrir börnum sem koma hingað úr öðrum samfélögum svo þau upplifi líka að íslenskan sé þeirra. Einhverjum finnst þetta viðhorf kannski þjóðrembingslegt en það er það ekki. Til að læra tungumál þarftu að eiga tungumál. Til að meta menningu þarftu að þekkja menningu. Til að skilja eitthvað nýtt þarftu að eiga samanburð við eitthvað annað. Það er mikilvægt að eiga eitthvað sem er þitt, jafnvel þótt það sé til þess eins að hafna því fyrir eitthvað sem þér finnst betra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)