154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

stjórnsýslulög.

787. mál
[17:08]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir andsvarið. Það er fínt að fá þetta fram og við hljótum að vera sammála um að það er mikilvægt að nefndin fari vel yfir þessi álitaefni því að ein af grundvallarreglum stjórnsýsluréttar við meðferð stjórnsýslukæra er auðvitað óskráð meginregla um hraða málsmeðferð. Í frumvarpinu segir að óhjákvæmilegt sé að öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í máli leiði til þess að málsmeðferðartíminn verði lengri en hann hefði annars verið og þegar vikið sé frá lögmæltum afgreiðslufrestum stjórnsýslumála þurfi að gæta þess að slíkt sé alls ekki gert nema brýna nauðsyn beri til. Þessar tafir sem verði á málsmeðferð og óhjákvæmilega muni leiða af öflun ráðgefandi álits komi sér illa fyrir aðila máls þar sem hagsmunir séu yfirleitt miklir af því að fá skjóta úrlausn á málum fyrir úrskurðarnefndum og því geti langur málsmeðferðartími hjá kærunefnd beinlínis valdið aðila máls tjóni. Því skýtur kannski svolítið skökku við að það er bæði talað um það í frumvarpinu að þetta ætti ekki að hafa fjárhagsleg áhrif en á sama tíma er ekki búið að meta hvort það hafi einhver fjárhagsleg áhrif á aðila máls. Ég velti því bara fyrir mér í þessu síðara andsvari mínu hvort hæstv. forsætisráðherra hafi áhyggjur af þessu mögulega eða væntanlega tjóni aðila af því að málsmeðferðartíminn dragist óhjákvæmilega, eins og segir í frumvarpinu.