154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

stjórnsýslulög.

787. mál
[17:12]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsöguna og ekki síst andsvarið hér áðan. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra að hér sé um réttarbót að ræða. Við erum aðilar að EES-samningnum og þá er mjög mikilvægt að stjórnsýslunefndir túlki lögin í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og leiti skýringa á samningnum hjá EFTA-dómstólnum komi til álita mál sem eru fyrir nefndinni sem varða túlkun á samningnum. Það er mjög mikilvægt, eins og kemur fram í frumvarpinu, hvort sem aðili krefst þess að leitað verði ráðgefandi álits eða að stjórnsýslunefndir taki sjálfstæða ákvörðun, að gefa aðilum máls kost á að tjá sig, eins og segir í 1. gr. frumvarpsins.

Það segir í greinargerðinni að í Noregi, þar sem stjórnsýsluréttur er mjög sambærilegur okkar, sé ekki fyrir að fara sérstakri lagaheimild um heimildir kærunefndar til að afla ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum. Slíkt er talið heimilt á grundvelli almennra stjórnsýslureglna og EES-réttar. Svo segir í greinargerðinni að það megi leiða líkur að því að sama gildi hér á landi, þ.e. að þessi heimild sé almennt til staðar en hún hafi ekki verið notuð.

Mín spurning er þessi: Í ljósi þess að kærunefnd útboðsmála hefur heimild í lögum frá 2016 til að leita álits EFTA-dómstólsins, sem hefur verið gert í tveimur málum, annars vegar málinu um Tak-Malbik og hins vegar Hraðbraut, og líka í ljósi þess sem hæstv. forsætisráðherra benti á, að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála taldi sig ekki hafa þessa heimild, kom til greina að veita einstökum nefndum þessa heimild en ekki gefa svona almenna heimild? (Forseti hringir.) Hefur forsætisráðherra skýringu á því af hverju þessi heimild hefur ekki verið nýtt sem er raunverulega til staðar nú þegar, hefur hún einhverjar upplýsingar um það?