154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Áhrif aukins peningamagns í umferð.

[15:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég er á svipuðum slóðum og hv. þm. Kristrún Frostadóttir. Öðruvísi mér áður brá, það er varla þornað blekið á nýgerðum kjarasamningum þar sem ríkissjóður segist þurfa að taka á sig 80 milljarða kr. á næstu fjórum árum og þá fáum við bara beint í andlitið að það eigi að auka peningamagn í umferð um rétt 28 milljarða kr. með því að kaupa upp Tryggingamiðstöðina. Það er ekki nóg með það heldur sendir í rauninni bankastjóri Landsbankans í orðsins fyllstu merkingu fjármálaráðherra fingurinn og segir hreinlega að fjármálaráðherra komi þetta ekkert við, akkúrat ekki neitt. Ég velti því fyrir mér í ljósi þess að við erum ekki enn þá búin að klára þessa sölu á Íslandsbanka, sem þó hefur verið í algjörri andstöðu Flokks fólksins frá upphafi, og að nú sé búið að boða og ýta undir endalaust að við eigum líka að losa okkur við Landsbankann, að samt komi þessi ágæti bankastjóri Landsbankans og segi að það sé verið að gera bankann samkeppnishæfari með því að kaupa tryggingafélag. Ég heyrði líka hæstv. forsætisráðherra segja að hún hefði ekki sagt að þau hefðu ekki vitað af hlutunum. Mig langar að vita hver það er sem kemur fram með þessa hugmyndafræði. Hvaða gjörningar og plott eru í gangi þegar hæstv. fjármálaráðherra stígur fram og segir að þetta verði ekki samþykkt nema þá að við seljum Landsbankann í leiðinni? Er það virkilega svo, að á sama tíma og verið er að telja okkur trú um að við eigum ekki að eiga neitt sé verið að telja okkur trú um að við verðum að kaupa tryggingafélag, á sama tíma og við ættum í rauninni að vera að fá arð af eigu okkar, Landsbankanum, hátt í 30 milljarða, í stað þess að eyða honum í tryggingafélag?

Ég skil þetta ekki. Eins og Sjálfstæðisflokkurinn og fleiri hafa sagt: Báknið burt. Ég get ég ekki betur séð en að verið sé að belgja út báknið og stofna nýgerðum kjarasamningum í stórkostlega hættu með auknu peningamagni í umferð upp á tæpa 28 milljarða kr. sem um leið heitir olía á verðbólgubálið.