154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Úrgangsmál og hringrásarhagkerfið.

[16:07]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Þetta er enn og aftur spurning um forgangsröðun verkefnanna. Nú er hart barist um hvern milljarðinn sem til aflögu kann að vera og við þurfum að mynda skýra forgangsröðun. Þetta er auðvitað kall tímans, hvernig sem hann lítur nú út, sá kall, en kall tímans er að endurnýta og fara í hringrásarvinnuna alla. Ég tel að við eigum að leggja mun meiri áherslu á þá endurvinnslu- og hringrásarhugsun alla heldur en við höfum megnað að gera til þessa. Í því samhengi vil ég aðeins benda á eina af hinum fjölmörgu dýru tilskipunum sem koma frá fjölþjóðlegum embættismönnum í Brussel, í Evrópuþinginu. Okkur var kynnt sirka 150 milljarða holræsaplan um úrgangsmálin sem þannig eiga skolast samkvæmt tilskipuninni með réttum hætti og betri hætti en við höfum haft rænu á að koma okkur upp sjálf. Bara vegna þess að þetta er á leiðinni sem tilskipun og við höfum verið afskaplega hlýðin og fljót að bregðast við slíkum tilskipunum og í ljósi þeirrar áherslu sem okkur ber að leggja á þennan málaflokk, allt endurvinnslu- og hringrásarforgangsmálið okkar, þá ætla ég að leggja það til við hæstv. ráðherra að hann óski eftir umþóttunartíma og fresti á að innleiða þessa nýju og sennilega með dýrustu tilskipunum seinni tíma, holræsatilskipunina sem ekki er beinlínis komin hér til afgreiðslu í þinginu. En þetta er af svipuðum toga. Ég segi bara: Fyrst brýnustu málin efst í röðina og svo tökum við á hinu sem að utan er talið okkur fyrir bestu.