154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Úrgangsmál og hringrásarhagkerfið.

[16:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu hér og ráðherra fyrir að koma til hennar. Þetta er auðvitað málaflokkur þar sem býsna margt er hægt að laga og ná árangri með. Mér hefur þótt á köflum vera lítil fótfesta, ef svo má segja, í þeim atriðum er snúa að meðhöndlun sorps. Það hafa verið settar hér á laggirnar ítrekað nefndir og vinnuhópar sem skoða sorpbrennslu á öðrum stöðum en þær hafa verið framkvæmdar á fyrri stigum. Við í þingflokki Miðflokksins höfum held ég fjórum sinnum lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að farið verði í ítarlega úttekt á vegum hins opinbera á kostum þess að setja hér á laggirnar hátæknisorpbrennslustöð sem nýtir þau verðmæti sem í brennanlegu sorpi felast. En myndin er auðvitað stærri. Við heyrum fólk reglulega hrakyrðast í garð plastsins sem er þó sú vara sem hefur dregið hvað mest úr matarsóun og tryggt margs konar framfarir í samfélaginu og heimsbúskapnum í raun. Það blasir við að holræsatilskipunin sem hv. þm. Jakob Frímann Magnússon kom inn á áðan er auðvitað formuð utan um allt annað umhverfi en við búum við hér þar sem flóðs og fjöru gætir í meira mæli en víðast hvar annars staðar í heiminum.

Ég kem frekar inn á atriði í seinni ræðu minni hér á eftir er varða hátæknisorpbrennsluna, en ég held að það sé til mikilla bóta og ánægjulegt að þessi umræða sé komin hingað inn í þingsal. Ég hvet okkur til að taka hana á þeim nótum að hafa hugann sem opnastan, nýta verðmæti hér heima, hætta þessari furðuaðgerð að flytja sorp til útlanda til brennslu og (Forseti hringir.) reyna að búa til verðmæti úr þeim verðmætum sem í sorpinu raunverulega felast.