154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

kynfæralimlesting kvenna.

595. mál
[17:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er virkilega jákvætt að íslensk stjórnvöld skuli ætla að auka þróunarsamvinnu og viðveruna í Síerra Leóne. Ég hef séð með eigin augum góðan árangur af verkefnum okkar þar og mikla möguleika í þessu fallega landi sem hefur glímt við, að því er virðist, endalaus áföll. En áskoranirnar eru fjölmargar. Ein af þeim er auðvitað gríðarlega hátt hlutfall kvenna sem eru limlestar á kynfærum, flestar á barnsaldri. Limlestingin felst í því að hluti af eða öll ytri kynfæri kvenna eru fjarlægð. Þetta er gríðarlega alvarlegt ofbeldi og mannréttindabrot gagnvart konum.

Mér er rosalega minnisstæð saga sem ég heyrði þegar ég var í Síerra Leóne frá íslenskri konu sem er búsett þar. Hún sagði mér frá því að hún hefði einhvern tímann verið úti á götu og séð svo fallega skrúðgöngu. Allir hefðu stoppað til að horfa á hana og hún hefði verið að spyrja bílstjórann út í þetta, hverju væri verið að fagna og tekið myndir af skrúðgöngunni en það hefði verið fátt um svör. Hún endaði með því að spyrja samstarfsfélaga sína út í þessa skrúðgöngu og sýndi þeim myndirnar. Þá var henni bent á að þetta væru ungar stelpur sem væru að snúa til baka úr skóginum þar sem þær hefðu mátt sæta kynfæralimlestingu. Og þegar betur var að gáð, þegar hún skoðaði myndirnar betur, sá hún fyrir miðju myndarinnar pinkulitlar stelpur, náfölar í framan, sem höfðu verið málaðar hvítar, allir aðrir í skrúðgöngunni svakalega glaðir og fagnandi, en hún lýsti því þannig að þær hafi verið eins og dauðinn sjálfur. Ég hef aldrei getað gleymt þessari frásögn.

Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra hvort og þá hvernig stjórnvöld munu beita sér fyrir útrýmingu á þessu skelfilega ofbeldi með nýju sendiráði okkar í Síerra Leóne.