154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Já, það eru að berast fréttir af því að ríkisbankinn Landsbankinn hyggist færa út kvíarnar og gera sig gildandi á tryggingamarkaði og kaupa allt hlutafé í TM fyrir 28,6 milljarða. Þetta mál eitt og sér dregur fram hversu ankannalegt eða ótækt það er að ríkið eigi eignarhluti í fyrirtækjum sem eru á samkeppnismarkaði. Gildir þá einu hvort um er að ræða fjármálamarkaði, smásölumarkaði eða fjölmiðlamarkaði eða hvaða markaði sem eru nefndir. Það er alveg ljóst og það er auðvitað áhyggjuefni, herra forseti, að þessi sala eða kaup Landsbankans á þessum eignarhlut eru gerð án þess að bankaráð upplýsi Bankasýslu ríkisins um þessi kaup. Það er ámælisvert, ekki upplýst um það. Það er líka komið í ljós, herra forseti, að þessi ráðstöfun er ekki í samræmi við eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum þar sem eitt aðalatriðið er m.a. að það eigi að stuðla að samkeppni og ríkið eigi að draga sig úr samkeppnisrekstri á þessum markaði.

Hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson sakar hér hæstv. fjármálaráðherra um að bregðast ekki við. Þetta er alrangt, herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst skoðun sinni um það hver eigendastefna ríkisins er. Hæstv. fjármálaráðherra fór fram á það í bréfi til Bankasýslunnar í gær að gerð yrði grein fyrir þessu máli. Bankasýsla ríkisins bregst við og núna er boltinn hjá bankaráði Landsbankans og þá kemur í ljós hvernig á þessu stóð öllu saman.