154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson fór hér mikinn áðan út af fyrirhuguðum kaupum Landsbankans á tryggingafyrirtæki og segir að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki brugðist við fyrr en fram hafi verið komið bundið tilboð frá bankanum í þetta tryggingafélag. Það er ágætt að rifja það hér upp hvenær lögin um Bankasýsluna voru sett. Þau áttu að gilda í fimm ár, voru sett í tíð vinstri stjórnarinnar af flokki hv. þingmanns, Samfylkingunni, og Vinstri grænum. Þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, lagði fram frumvarp fyrir þingið um að leggja niður Bankasýsluna fyrir nokkrum árum og taka þessa ábyrgð í hendur ráðuneytisins, taka hina pólitísku ábyrgð, en það var auðvitað lagst gegn því af þessum sömu flokkum og fleirum til. Ráðherrann fór að lögum, þessum lögum sem sett voru um þessa stofnun sem á að hafa með þetta að gera. Yfirlýsingar ráðherrans sem hann hafði haft frammi áður og stefna hans í þessum málum hafði örugglega ekki farið fram hjá stjórnendum bankans eða stjórnendum Bankasýslunnar.

Þetta vekur aftur upp þær spurningar, virðulegur forseti, hvert við erum komin í framsali valds frá Alþingi. Það á ekki bara við í þessu máli heldur svo víða og svo víða. Embættismenn, andlitslausir, geta farið hér með vald sem við berum pólitíska ábyrgð á. Ég held að það sé tímabært að þingið taki það til skoðunar og hætti þessum feluleik og taki ábyrgð á sínum gjörðum.

Sala fjármálafyrirtækja er á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og einnig fleiri ríkisfyrirtækja. Það er sjálfsagt mál að okkar mati að ríkið sé ekki að vasast í þeim áhætturekstri, að ríkið eigi að draga sig út úr þeim rekstri og fjármuni sem þar eru geymdir og liggja í tugum milljarða, jafnvel hundruðum milljarða ef allt er talið, eigi að nota í önnur innviðaverkefni, í aðrar fjárfestingar á vegum ríkisins, eins og til að mynda samgöngumál, miklu arðbærari (Forseti hringir.) verkefni fyrir samfélagið í heild. Þessu er Samfylkingin á móti, virðulegur forseti. Hún vill efla ríkisrekstur ef eitthvað er.