154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú bara byrja á því að benda hv. þingmanni á að ég sagði frá því í ræðu minni, og það hefur í rauninni ekkert að gera með þingmannamál hv. þingmanns heldur kemur það hér fram, að forsætisráðherra er búinn að stofna vinnuhóp, það er ekki verið að fara að gera það, það er búið að stofna vinnuhóp. Það kemur fram, ef hv. þingmaður hefur lesið þessa áætlun sem við erum hér að fjalla um. Og forsætisráðherra kemur til með að leggja fram frumvarp þess efnis að samningurinn verði lögfestur. Og já, ég ætla að staðfesta að það á að gera það og ég vona svo sannarlega að okkur auðnist að klára okkur af þessu því að það er alveg rétt að við höfum beðið allt of lengi eftir því að það verði gert. Ég er sammála hv. þingmanni í því. Við þurfum líka að klára okkur hér af mannréttindastofnun sem er til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og kemur fram hér og er líka um það fjallað í þessari grein þar sem verið er að tala um lögfestingu samningsins. Þannig að ég vona svo sannarlega að okkur lánist að klára okkur af því og treysti auðvitað á stuðning hv. þingmanns hvað það varðar.

Varðandi verndaða vinnustaðinn og þessa starfsmenn er ég auðvitað ekki aðili máls í því. Ég heyrði þetta í útvarpinu og þar sagði forstöðumaðurinn að það yrðu einhverjir áfram í vinnu. Það var það sem ég heyrði í því samtali. Ég get alveg fallist á það að um leið og markmiðin eru samt sem áður þau, eins og við vitum, að fólk vinni bara úti á hinum hefðbundna vinnumarkaði, sem þarf auðvitað líka að taka sig saman í andlitinu og vera tilbúinn til þess að taka á móti fólki, þá þarf að vera val. Það þarf líka að vera val. Alveg eins og ég hef talað um í kringum búsetu fatlaðs fólks, (Forseti hringir.) ég er sammála því að þar eigi að vera val, að ekki eigi að steypa alla í sama form eins og dálítið er verið að gera. Það er það sem t.d. samtökin hafa talað dálítið fyrir. Ég er t.d. ekki sammála þeirri nálgun.