154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að hv. þingmaður sé pirraður og það verður þá bara þannig að vera. Þetta er afrakstur vinnunnar. Hann er lagður fyrir okkur af hálfu þessara hópa og þess fólks sem að þessu kom. Þingmanninum kann að þykja það óþarfi. Það er bara allt í lagi og honum má þykja það óþarfi. Ég get alveg tekið undir að það sem síðan kemur út úr þeirri vinnu sem fram undan er getur Alþingi kallað eftir á hverjum einasta tíma og er ekkert að því að það sé gert. Ekki síst, eins og ég sagði, er okkar eftirlitshlutverkið. Okkur ber að fylgja því eftir hvernig verkefninu vindur fram. Við eigum alltaf að kalla eftir því með reglubundnum hætti. Það er okkar eftirlitshlutverk og um það veit ég að við erum sammála. Þannig að það að sjá hvað fram undan er og hvað á að gera skiptir máli, ekki síst með tilliti til þess hvernig verkefnið var unnið að mínu mati. Og í öllum áætlunum, hvort sem það er þessi eða aðrar, sjáum við á spil um hvað á að fara að gera, ekki bara niðurstöðuna. Fyrir mig dugar það ekki. (Gripið fram í.) Ég vil geta haft áhrif á hvað á að gera og það gerðum við t.d. í þessu. Við erum með tvo nýja stóra þætti þarna inni sem nefndin setti inn. Mér finnst vera mikilvægt atriði að við gátum haft áhrif á það og við getum þá líka fylgt því enn betur eftir hvernig við viljum sjá það þróast. Þess vegna tek ég undir að við eigum að fylgja þessu eftir og kalla eftir því hvernig þetta allt saman gengur eftir árum, því að eins og við vitum er þetta jú yfir nokkur ár. Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála þingmanninum um að það sé ónauðsynlegt að koma með þetta hérna inn en get hins vegar verið sammála honum um hitt atriðið, að okkur ber að fylgja þessu eftir.