154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[16:25]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir vitnaði til mín áðan og nefndi hér Múlalund. Áður hafði komið fram að hún teldi að þeir sem þyrftu á að halda hefðu áfram tækifæri á því að starfa á þessum verndaða vinnustað. Ég ætla að lesa hérna upp, með leyfi forseta, auglýsinguna þar sem var boðaður fundur 13. mars síðastliðinn á Múlalundi þar sem stendur:

„Nýir tímar á Múlalundi, vinnustofu SÍBS. Á fundinum mun framkvæmdastjórn Múlalundar og fulltrúar Vinnumálastofnunar kynna breytingar á starfsumhverfi Múlalundar.“

Ég ætla ekki að fara í veitingarnar og annað slíkt en svo stendur:

„Nú liggur fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um landsáætlun um málefni fatlaðs fólks og byggir hún á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samkvæmt honum er stefnt að því að öll launuð vinna fólks með fötlun færist af aðgreindum vinnustöðum á almennan vinnumarkað.“ — Öll störf.

Svo segir í niðurlaginu á þessari auglýsingu:

„Stjórn SÍBS hefur ákveðið að hefja undirbúning að endurskipulagningu Múlalundar til framtíðar. Þá er áfram lögð áhersla á samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og að efla fólk til sjálfsbjargar sem hefur verið markmið SÍBS alla tíð.“

Það er þetta sem stuðar fólk þegar því er sagt að það eigi að fara að leggja niður allt í þeirri mynd sem það þekkir. Það er þetta sem stuðar fatlað fólk þegar það veit að þeirra verndaði vinnustaður verður ekki lengur til staðar eftir árið 2024, því það er sá tímafrestur sem gefinn er til að endurskipuleggja og fara í allar þessar aðgerðir. Fyrir utan það enn og aftur, hv. þingmaður, að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er ekki enn þá orðinn að lögum. Hvað segir hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir um nákvæmlega það sem ég er að lesa upp hér? Er eitthvað óeðlilegt að fatlað fólk sé áhyggjufullt yfir þessu?