154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[19:52]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu frá 2024–2028. Ég styð heils hugar þessa þingsályktunartillögu og veit að við munum greiða leið hennar í gegnum þingið í þingflokki Pírata. Það er mjög mikilvægt að við skuldbindum okkur til að veita fjárframlög til Úkraínu sem sannarlega þarf á því að halda og að Alþingi sverji þess í raun eið að ætla að styðja málstað Úkraínu á alþjóðavettvangi. Ég tel alveg gríðarlega mikilvægt að við sammælumst um það hér með atkvæðagreiðslu og tillögu sem kemur frá Alþingi og getum þá líka fylgt því fast eftir að ríkisstjórnin fylgi þessari tillögu, hver sem hún svo verður þessi ár sem fram undan eru.

Mig langar að staldra við nokkur atriði vegna þess að ég tel ótrúlega mikilvægt það sem fram kemur hér, að markmið stefnunnar, með leyfi forseta, sé að „styðja við sjálfstæði, fullveldi, friðhelgi landamæra, öryggi borgara, mannúðaraðstoð og uppbyggingarstarf í landinu. Stefnan byggist á skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, endurspegli lýðræðisleg gildi sem íslenskt samfélag hefur í heiðri, og sé hlutfallslega sambærileg að umfangi við það sem önnur Norðurlönd leggja af mörkum.“

Ég staldra aðeins við þetta vegna þess að ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna við þurfum endilega að vera í einhverju hlutfallslegu samræmi við Norðurlöndin þegar kemur að stuðningi okkar við Úkraínu. Ég átta mig á því að við viljum vera með náið samstarf við Norðurlöndin og að við vinnum mjög gjarnan og mjög náið með þeim. En ég skil ekki hvers vegna við þurfum alltaf að taka mið af því hversu há fjárframlögin eru þar og stilla okkur af. Ef þau myndu öll á morgun ákveða að hætta fjárframlögum sínum til Úkraínu, myndum við þá ákveða að gera það í samræmi við það? Ég átta mig ekki alveg á því af hverju við erum með þessa beinu tengingu, virðulegi forseti, við peningana þegar kemur að Norðurlöndunum. En gott og vel, þetta er kannski einhver leið til þess að — ég skil eiginlega ekki alveg af hverju við verðum að hafa þetta nákvæmlega svona. Ég hefði haldið að við gætum metið okkar eigin getu til að styðja við Úkraínu, algjörlega burt séð frá því hvort Norðurlöndin styðja hlutfallslega meira eða minna heldur en við.

Að því sögðu er þessi tillaga bara nokkuð góð og með skýrar áherslur en mér finnst vanta inn í hana sér í lagi stuðning sem ég hefði viljað sjá sem snýr að því að fella niður tolla af vörum frá Úkraínu sem framleiddar eru í Úkraínu. Þetta er aðgerð sem stjórnvöld í Úkraínu hafa farið fram á sem stuðning við sig sem gefur þeim ákveðið sjálfstæði, skulum við segja. Þetta er minna svona eins og þróunaraðstoð eða stuðningur heldur meira bara viðskiptalegs eðlis, sem ég held að sé gott, að gera Úkraínu kleift að eiga í frjálsum viðskiptum þegar það er rosalega erfitt fyrir Úkraínu að eiga í frjálsum viðskiptum. Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með því hvernig fór fyrir því máli hér í þessu þingi, vegna þess að það er rétt sem fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra í andsvörum við mig hérna áðan að við gerðum þetta vissulega fyrsta árið. Síðan stóð til að gera þetta aftur, að framlengja, eins og t.d. Bretland hefur gert og Evrópusambandið hefur gert, en þá allt í einu kemur babb í bátinn og þetta mál dagaði uppi, að ég held þvert á vilja þáverandi utanríkisráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, hæstv. núverandi fjármálaráðherra. Hæstv. utanríkisráðherra sagði í andsvörum við mig áðan að sumir hefðu hætt þessu, sum lönd hefðu hætt þessu, en eins og ég bendi á núna á það ekki við um Bretland og það á ekki við um Evrópusambandið þótt það sé núna að draga í land vegna víðtækra mótmæla bænda en hér hafði þetta aðallega áhrif á kjúklingabú, sem ég tel að séu ekki sérlega margar kennitölur á bak við og ég sá ekki gríðarleg efnahagsáhrif af þessari aðgerð fyrir okkur, á þeim tíma sem þetta átti sér stað a.m.k., þannig að mér finnst mjög áhugavert að vita hvers vegna þetta var stöðvað og hvers vegna þetta komst ekki áfram. Ég hef ekki enn þá fengið mjög skýr svör fyrir því að það þurfi að fara fram einhvers konar greining á því hvernig áhrif þetta myndi hafa og það var ekki hægt að taka mið af því ári sem þessi niðurfelling var í gildi eins og hæstv. ráðherra sagði hérna áðan. Mér finnst það frekar kúnstug rök vegna þess að við hljótum að geta tekið mið af því nákvæmlega hvernig þetta var þetta ár sem innflutningsgjöldin voru ekki við lýði. Það myndi örugglega gefa okkur nokkuð góða vísbendingu um hvernig þetta myndi líta út í framhaldinu, þannig að ég kaupi ekki alveg þau rök, virðulegi forseti. En gott og vel, við fáum kannski skýringar á því síðar.

Ég vildi líka árétta alveg sérstaklega mikilvægi þess að við styðjum, eins og kemur hér fram, með leyfi forseta:

„Virka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og málafylgju sem styðji við örugga, sjálfstæða, fullvalda og lýðræðislega Úkraínu í samræmi við vilja íbúa landsins, auk friðarferlis forseta Úkraínu og ábyrgðarskyldu Rússlands vegna áhrifa stríðsins.“

Hér held ég að við getum lagt mjög mikið af mörkum, t.d. þegar kemur að sérstökum dómstól fyrir Úkraínu sem snýr að glæpi gegn friði og hér er ótrúlega mikilvæg framþróun á sviði þjóðaréttarins að eiga sér stað, á sviði alþjóðlegs refsiréttar, sem ég er reyndar sérfræðingur í og finnst ótrúlega merkilegt að fylgjast með þessari baráttu Úkraínumanna fyrir því að settur verði á fót sérstakur dómstóll út af þessum glæpi gegn friði, þ.e. „the crime of aggression“, sem er tiltölulega nýkominn inn í alþjóðarétt sem viðurkenndur glæpur. Ástæðan fyrir að það er svo mikilvægt að rétta yfir Pútín og öðrum hans nánustu samstarfsmönnum vegna glæpsins gegn friði er hversu erfitt væri annars að draga hann til ábyrgðar fyrir nokkurn skapaðan hlut þegar kemur að þessari innrás. Það er oft talað um það að stærsti glæpurinn sé auðvitað sá að hefja stríðið. Stærsti stríðsglæpurinn er að undirbúa stríðið sjálft og koma því í framkvæmd og þetta er auðvitað stóri glæpurinn, að hefja innrásarstríð, algjörlega fullkomlega óréttlætanlegt innrásarstríð sem eðli málsins samkvæmt er ólögmætt. Um leið og við værum komin með sérstakan dómstól sem hefði lögsögu yfir þessu þá væri hægt að gefa út handtökuskipun á Rússlandsforseta. Það myndi kannski gera honum svolítið erfiðara fyrir.

Þá vil ég líka minnast aftur á það sem ég minntist á við hæstv. utanríkisráðherra í andsvörum hér áðan og snýr að því að nota frystar eignir rússneska ríkisins til þess að borga fyrir það tjón sem Úkraínumenn hafa orðið fyrir. Þetta er hugmynd sem hefur notið sífellt meira fylgis á alþjóðavettvangi og ég veit að nýtur ríks stuðnings í Bandaríkjunum um þessar mundir, mögulega ekki mikið lengur ef Trump verður aftur Bandaríkjaforseti. Því er tíminn naumur til að tryggja að hægt sé að nota þá u.þ.b. 300 milljarða evra sem Rússar eiga í frystum eignum til að greiða fyrir tjón. Þetta hefur verið gert áður. Það eru fordæmi fyrir þessu. Þetta er tæk leið samkvæmt alþjóðarétti til að bregðast við aðstæðum sem þessum. Ég held að það væri mjög sterkur leikur fyrir okkur að þrýsta á félaga okkar í Evrópusambandinu og annars staðar í Evrópu að notfæra sér þessa leið til að þrýsta bæði á Rússa og til að borga fyrir tjónið, sérstaklega þar sem við áttum svo sterkt frumkvæði í því að koma á fót tjónaskrá, en hún er til lítils ef ekkert er til að bæta tjónið.

Að lokum, þar sem ég sé að ég á einungis eina mínútu eftir, virðulegi forseti, vildi ég segja að það er alveg rétt sem fram kemur í þessari tillögu að við eigum allt okkar undir alþjóðakerfinu, því að fullveldi þjóða sé virt, því að mannréttindi séu virt, því að það sé virkt alþjóðakerfi hérna og ég held að við megum ekki bara horfa til þessa þegar við erum að horfa á innrásina í Úkraínu. Við hljótum að horfa til þessa líka þegar við erum að sjá ömurðina sem er að eiga sér stað, hræðilegu stríðsglæpina sem eru að eiga sér stað á Gaza. Tvískinnungurinn sem á sér stað gagnvart því hvernig komið er fram við fólkið á Gaza, fólkið í Palestínu, á líka stóran þátt í að grafa undan þessu alþjóðakerfi sem við eigum okkar fullveldi og frelsi undir og við verðum að gera betur í því að styrkja það kerfi og berjast af fullum krafti gegn stríðsglæpum, glæpum gegn mannúð, hvar sem þeir gerast og hvernig sem fólkið sem verður fyrir þeim lítur út.