154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[20:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér í þessu samhengi niðurlaginu í tillögunni en þar stendur, með leyfi forseta:

„Heildarframlög íslenskra stjórnvalda vegna Úkraínu á tímabilinu 2024–2028 taki mið af stuðningi annarra ríkja Norðurlandanna og komi til viðbótar öðrum framlögum til utanríkis-, varnar- og þróunarmála. Til samræmis verði framlög ársins 2024 aukin um 20% miðað við árið 2023.“ — Svo kemur hér kaflinn sem ég er nú að vísa í: — „Í tengslum við fjárlög á ári hverju verði tekin ákvörðun um heildarframlög, sem verði að lágmarki þau sömu og árið 2024 …“

Hér erum við að setja ákveðið gólf. Mér þætti fara betur á því að við værum með samræmt orðalag í þessu, að við værum mögulega að halda okkur við orðalagið í niðurlaginu þegar kemur að samanburði við Norðurlöndin, þ.e. að framlögin taki mið af stuðningi annarra ríkja Norðurlandanna. Eins og þetta er orðað í 2. mgr. finnst mér eins og næstum sé verið að setja á þetta topp eða þak en ef við værum að taka mið af einhverju og að það verði aldrei lægra en þetta — mér finnst við vera að gefa okkur meira rými með því. Þetta eru kannski orðalagsvangaveltur sem ég held að geti þó skipt máli þegar þolinmæðin fer mögulega að þverra og við vitum ekki hvað tekur við eftir næstu kosningar o.s.frv. Þá skiptir alveg máli að vilji þingsins í þessum efnum sé skýr og að síðar sé ekki hægt að túlka það sem svo að við lítum á þetta sem einhvers konar þak. Ég átta mig á því að við getum ekki sent Úkraínu einhverjar eldflaugar en ég held að það sé alveg ágætisrými í því fyrir okkur þegar við tölum um að taka mið af einhverju. Auðvitað getum við ekki tekið mið af hergagnasendingum Norðurlandanna, það gefur augaleið.