154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Sú sem hér stendur þreytist ekki á að ræða alvarlega stöðu fólks með fíknivanda á Íslandi og nú hefur Ríkisendurskoðun gert alvarlegar athugasemdir við það hvernig stjórnvöld hafa brugðist við ópíóíðavandanum. Þar er bent á m.a. að engin skilgreind þjónusta eða úrræði eru í boði fyrir einstaklinga í bráðum vanda vegna fíknar þar sem bráðamóttaka Landspítala veitir almennt ekki meðferð við fráhvörfum og bið er jafnan eftir þjónustu á Vogi. Heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt fyrirætlanir um þróun flýtimóttöku og falið Sjúkratryggingum Íslands að kostnaðarmeta verkefnið. Ég tek undir með Ríkisendurskoðun að það er tilefni til að hraða þeirri vinnu. Ítrekað hef ég kallað eftir því að heildarendurskoðun fari fram á málaflokknum, líkt og Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, talaði fyrir á sínum tíma. Það er forsenda þess að við fáum yfirsýn og skilning á stöðunni og hvers konar úrræða er þörf. Þarfir fólks með vímuefnavanda eru ólíkar og fjarri því að öll sem glíma við fíknivanda þurfi inniliggjandi sjúkrahúsdvöl, eins og oft er ýjað að þegar biðlista eftir meðferð á Vogi ber á góma. Fjölmörg létust úr ópíóíðaeitrun á síðasta ári en eitt dauðsfall er einu of mikið.

Nú hafa þær ánægjulegu fréttir borist að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að móta heildarstefnu í áfengis- og vímuefnavörnum. Stefnan á að taka til forvarna, meðferðar og eftirfylgni, endurhæfingar og lagaumhverfis. Þetta eru gríðarlega mikilvæg skref en þau þurfa að gerast hratt og vel.

Að lokum vil ég segja að hér er talað um að það vanti þekkingu. Það er ekki ætlast til þess að þingmenn þessa lands hafi sérþekkingu á krabbameini eða hjarta- og æðasjúkdómum. Við þurfum ekki heldur að hafa sérþekkingu á fíknisjúkdómum. Við þurfum að hætta að útvista verkefnunum til samtaka áhugafólks og hafa þangað opinn krana. Við þurfum heildarendurskoðun og að sinna fólki í vímuefnavanda eins og öðrum sjúklingum hér á landi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)