154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Kristinn Rúnar Tryggvason (F):

Virðulegur forseti. Stöðu íslensks landbúnaðar er vægast sagt ábótavant. Svo virðist vera að staða bænda í allri Evrópu hafi verið virt að vettugi í of langan tíma og að þessari sögulegu og bráðnauðsynlegu starfsstétt hafi lengi verið tekið sem sjálfsögðum hlut. Staðreyndin er sú að án bóndans er enginn matur. Málefni landbúnaðarins og fæðuöryggi þjóðarinnar varðar okkur öll. Um er að ræða neytendamál, lýðheilsumál og byggðamál. Það er nauðsynlegt að við horfum til hagsmuna okkar Íslendinga í þessum málum og styrkjum veikar stoðir innlendrar landbúnaðarframleiðslu. Þrotlaus vinna bænda er ekki sjálfgefin. Innlend framleiðsla hefur hvorki stærðina né burði til að viðhalda samkeppni við erlenda verksmiðjuframleiðslu sem fylgir ekki sömu reglum og stöðlum og lögð er á starfsemina hér á landi, t.d. hvað varðar sýklalyfjaónæmi. Innflutningur matvælaafurða hefur stóraukist á síðustu árum og hefur lamandi áhrif á innlenda framleiðslu. Tollvernd Íslands í þessu samhengi þarfnast úrbóta sem allra fyrst. Þar eigum við langt í land. Aukin tollvernd og endurskoðun verðlagsgrunnsins myndi jafna aðstöðu milli innlendrar og erlendrar matvælaframleiðslu sem þjónar bæði hagsmunum bænda og neytenda. Að auki er nauðsynlegt að eftirlit með innfluttum vörum verði eflt til muna. Það gengur ekki að vara komi hingað flokkuð inn sem hakkefni þegar um mun dýrari vöru er að ræða. Tollasamningur okkar við ESB þarfnast endurskoðunar en markmið hans á að vera að skapa íslenskum landbúnaði eðlileg og sambærileg samkeppnisskilyrði gagnvart erlendum stórverksmiðjum sem hann etur kappi við. Það er nánast ómögulegt að keppa við slíkar verksmiðjur þar sem allt önnur lögmál gilda.

Ég lýk máli mínu með því að endurtaka að ef það er enginn bóndi þá er enginn matur.