154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[15:44]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við erum hér að samþykkja þessa framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fyrir árin 2024–2027, enda partur og mikilvægur liður í lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég vil, eins og hæstv. ráðherra, þakka þeim fjölmenna hópi sem kom að undirbúningi þessa máls og ég frábið mér það sem hér er sagt af hálfu fulltrúa Flokks fólksins og vanvirðinguna sem kemur fram gagnvart þeim sem þau telja sig hér vera talsmenn fyrir, sem er bara hreint ekki, enda má sjá á töflunni að þau hafa enga trú á nokkrum hlutum sem gerðir eru af hálfu ráðherra. Það er bara orðin stefna þessa flokks að alveg sama hvað gert er þá þýðir það að þau taka ekki undir það. En það er velferðarnefnd þingsins sem kemur til með að framfylgja því sem framkvæmdaáætlunin sem við erum hér með undir er með á snærum sínum og verður verkefni næstu ára.

Virðulegi forseti. Þetta er vanvirðing gagnvart þeim sem koma að þessari vinnu að tala með þessum hætti sem hér er gert og var gert í gær.