154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:14]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hérna vegna þess að við þurfum að geta rætt þessi mál og byggt upp traust á fjármálakerfinu. Það er mikilvægt að fá hér skýr svör í umræðunni fyrir þessi fyrirtæki, svona grundvallarfyrirtæki í landinu. Því miður hafa stjórnarathafnir Sjálfstæðisflokksins miklu frekar rýrt traustið. Við getum rifjað hér upp ýmis mál: Salan á Borgun., Lindarhvolsmálið var ekki til þess fallið að auka traust á fjármálakerfinu. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt í umræðunni að fá hér fram hjá ágætum hæstv. ráðherra hvað hún hyggst gera. Hvernig ætlar hún að beita sér? Hvernig ætlar hún að beita sér, þessi ágæti ráðherra, til þess að byggja upp traust á Landsbankanum á ný sem hefur greinilega rýrst í þessari umræðu? Það var farið í ákveðnar aðgerðir í Íslandsbankasölunni. Þar var gerð krafa um það að bankastjórinn viki úr starfi og að farið yrði í allsherjarhreingerningu. Mér finnst mjög mikilvægt og ég vænti þess að ráðherra hafi hugsað út í það hvað hún ætlar sér til þess að við náum á ný trausti á þessar stofnanir. Þess vegna er áhugavert að heyra hvað hæstv. ráðherra hyggst gera.