154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Fyrst, bara til að nefna það, er það Bankasýslan sem hefur það hlutverk að sjá um samskipti við fjármálafyrirtæki og hafa eftirlit með framkvæmd eigendastefnu og samningum ríkisins við viðkomandi fyrirtæki. Málefni af þessu tagi hefði þar af leiðandi átt að berast Bankasýslu ríkisins.

Um stöðu bankastjóra eða stjórnenda bankans þá þekki ég til starfa bankastjórans af góðu einu. Hún svarar til bankaráðsins, bankaráðið upplýsir Bankasýsluna og Bankasýslan upplýsir mig. Hér hafa samskipti og upplýsingaskipti ekki verið eins og þau hefðu átt að vera miðað við það fyrirkomulag sem lagt er upp með og skrifað er út.

Heilt yfir er ég þeirrar skoðunar að Landsbankinn og stjórnendur hans hafi staðið sig vel í sínum störfum. Það ríkir þokkalegt traust og bara ágætt traust um þá starfsemi og ég geri ráð fyrir því að svo verði áfram.

Núna er bankaráð Landsbankans með spurningar frá Bankasýslunni sem þau fá sjö daga til að svara. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir verður hægt að leggja mat á næstu skref, því að ég hef ekki upplýsingar um það sem Bankasýslan spyr um, þ.e. efni þess sem þar mun koma fram. Það skiptir máli að það liggi fyrir til að hægt sé að skoða næstu skref.

En bara þannig að það sé ítrekað hér aftur, það sem er kjarni máls er að það samræmist ekki eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki að ríkisbanki stígi inn á nýjan samkeppnismarkað og kaupi upp félag á almennum markaði og þenji út sinn rekstur þegar við erum með á stefnuskrá að losa um eignarhald í eigendastefnu, jafnvel þótt (Forseti hringir.) það sé ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar þar sem við erum í miðju kafi að selja Íslandsbanka.