154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:18]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú svolítið einkennilegt að heyra það að hér sé bara lýst yfir algeru trausti á þá sem fara með stjórn bankans þegar við erum að ræða hérna um að það hafi verið farið gegn eigendastefnu og eigendur ekki upplýstir. Þetta fer ekki saman, hæstv. ráðherra. Ég held að þú þurfir — að hæstv. ráðherra þurfi að hugsa þessi svör aðeins betur. Ég held að þetta mál sé einmitt tímanna tákn, að þarna sé kominn einhver bankaelíta sem telur sig geta farið og keypt upp fyrirtæki út og suður og það komi almenningi ekkert við. Ég vænti þess að almenningur vilji að hæstv. ráðherra sýni meira aðhald en kom hér fram í orðum hennar. Þess vegna væri gott að fá það undirstrikað að hún ætli ekki að lýsa yfir skoðun sinni í þessu máli, að hún ætli bara að láta Bankasýsluna fara alfarið með málið, eins og hægt var að (Forseti hringir.) skilja á henni. Ég vonast til þess að hún gefi aðeins skýrari svör, fyrir hönd almennings, að svona vinnubrögð líðist ekki.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að beina máli sínu til forseta og ávarpa hæstv. ráðherra og hv. þingmenn með viðeigandi hætti.)