154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nú heyrt þessi svör áður en þau eru í raun ekki svör við minni spurningu, sem er í fyrsta lagi: Hvers vegna gefur ráðherra út innihaldslausar hótanir um að einkavæða Landsbankann þegar hún veit að það stendur ekki til í þessari ríkisstjórn? Ég vil vitna beint í hæstv. ráðherra. Í umræddri færslu segir hæstv. ráðherra:

„Þessi viðskipti verða ekki að veruleika með mínu samþykki, nema söluferli Landsbankans hefjist samhliða.“

Þetta hljómar eins og hæstv. fjármálaráðherra segi að þessi sala muni ekki eiga sér stað nema Landsbankinn sé einkavæddur. Ég held að ég sé bara með ágætan lesskilning og þetta er það sem ég les út úr þessum orðum hæstv. ráðherra. Hvers vegna gefur hann út innihaldslausar hótanir um að einkavæða Landsbankann ef hann drattast ekki til að rifta samningi sem nú þegar er búið að gera? Hvers vegna, virðulegi forseti?