154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla mér ekki að slátra einu né neinu eða einum né neinum og bara legg það ekki í vana minn að gera það. Ég er hér til að upplýsa um þann feril sem er í gangi, þá athugun sem er í gangi, og ég er hér til að skýra það að já, það var orðrómur um að Landsbankinn hefði áhuga á að kaupa tryggingafélag. Ég sagði mína skoðun á þeim orðrómi með þeim fyrirvara að það væri orðrómur. Þegar það var greinilega ákveðið að bankinn ætlaði sér að gera þetta tilboð þá átti bankaráð að upplýsa Bankasýsluna um það, sem það virðist ekki hafa gert, a.m.k. ekki með formlegum hætti. Það er einmitt í skoðun núna og verið að kalla eftir upplýsingum um það, sem er í samræmi við þær leikreglur sem við sjálf höfum sett okkur.

Ég lít ekki svo á að ég hafi (Forseti hringir.) átt að gera hlutina öðruvísi heldur en ég hef gert fram til þessa. Prinsippafstaða mín er algjörlega skýr. Ég er sammála hv. þingmanni í því að það þarf að gera breytingar á þessu leikreglum (Forseti hringir.) en á meðan þær eru í gildi þá fer ég eftir þeim.