154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

fjármögnun kjarasamninga og áhrif á samgönguáætlun.

[10:39]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Seðlabanki Íslands hélt stýrivöxtum óbreyttum í vikunni þvert á væntingar ýmissa aðila, ekki síst vegna kjarasamninga sem undirritaðir voru nýlega. Um ákvörðun peningastefnunefndar um að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að kjarasamningarnir hefðu verið góð tíðindi en varðandi áhrif á vexti þyrfti fyrst að sjá hvernig stjórnvöld fjármögnuðu aðkomu sína að samningunum og hvernig laun þróast þegar gengið verður frá fleiri kjarasamningum. Einnig þyrfti að sjá hvort launahækkanir rynnu út í verðlag eins og svo oft áður. Nú er ljóst að þessir þættir eru ekki allir á valdi stjórnvalda en fjármögnun á aðkomu ríkisins að samningunum upp á 80 milljarða kr. er það auðvitað. Þessi 80 milljarða kr. aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna liggur nú fyrir en fjármögnunin ekki. Hún er stór óvissuþáttur varðandi það hvaða áhrif nýgerðir samningar munu hafa í átt til þess að hemja verðbólgu og vexti í kjölfarið.

Hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson stýrir mikilvægu og útgjaldaþungu ráðuneyti og engum dylst þörfin á því að leggja mikla áherslu á innviðauppbyggingu í samgöngum á næstunni. Engum dylst að stjórnvöld eru þar í töluverðri innviðaskuld, eins og það hefur verið orðað, og engum dylst vaxandi álag á samgöngukerfið okkar í ljósi fjölgunar ferðamanna. Nú er samgönguáætlun í vinnslu hjá umhverfis- og samgöngunefnd og ef samgöngur eru sá málaflokkur sem mun borga fyrir aðkomu ríkisins að kjarasamningunum þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvar verður helst borið niður? Verður hægt á löngu tímabærum og nauðsynlegum samgönguúrbótum á höfuðborgarsvæðinu? Verður hægt á framkvæmdum við stofnvegaframkvæmdir eða verður hægt á áætlun um jarðgangagerð? Hefur hæstv. ráðherra svör við þessu, þ.e. mun samgönguáætlun (Forseti hringir.) bera þess merki að það þurfi að hægja á og fara í niðurskurð þar til að fjármagna kjarasamninga eða er það enn þá óafgreitt af hálfu ríkisstjórnar?