154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

fjármögnun kjarasamninga og áhrif á samgönguáætlun.

[10:44]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tek undir með honum, þetta er þörf umræða hér í þingsal af því að þetta er náttúrlega gríðarlega mikilvægur málaflokkur. Það er óþarfi að fjölyrða um þau hræðilegu slys sem hafa orðið að undanfarið og má í mörgum tilfellum rekja til óviðunandi aðstæðna í vegakerfinu okkar. Ráðherrann talar um 6,5 milljarða á þessu ári og ég tek alveg undir það að 6,5 milljarðar er í stóra samhenginu ekki há upphæð, en það má leika sér með tölur og það má líka segja að hefðu vextir lækkað núna, hefði Seðlabankinn haft trú á þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar og hefði haft upplýsingar um fjármögnunina og Seðlabankinn hefði lækkað vexti um 0,25% þá er það lækkun á vaxtakostnaði heimila á landinu um 3 milljarða á ársgrundvelli. Þessar tölur er að finna víða og litlu tölurnar verða stórar þegar þær safnast saman og þetta skiptir auðvitað allt saman gríðarlega miklu máli. En ég heyri það að hæstv. ráðherra ætlar ekki að draga neitt úr í uppbyggingu (Forseti hringir.) á samgöngukerfinu miðað við það sem þegar er áætlað og það er ánægjulegt að heyra það.

Ég hef kannski aukaspurningu: Hvar verður gripið niður? (Forseti hringir.) Það skiptir svo gríðarlega miklu máli að almenningur og Seðlabankinn fái trú á aðgerðum stjórnvalda vegna þess að verðbólguvæntingar skipta náttúrlega öllu máli varðandi þróun mála.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir enn á ræðutímann sem er takmarkaður.)