154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[11:29]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Nú er það þannig að í Evrópurétti er gert ráð fyrir talsverðu svigrúmi til undanþágna frá samkeppnislögum þegar kemur að landbúnaði og eru m.a. félagslegar röksemdir fyrir því. Mig langar að spyrja og forvitnast um það frá hv. þingmanni: Er það afstaða Viðreisnar, hennar flokks, að það eigi ekki að auka með neinum hætti, að það eigi ekki að víkka út með neinum hætti þær heimildir sem afurðastöðvar, sérstaklega í þeim greinum landbúnaðar sem standa hvað veikast, hafa til ákveðinnar verkaskiptingar, til aukinnar hagræðingar og samstarfs, jafnvel þótt t.d. eftir séu sérstakir varnaglar í þágu neytenda? Er hv. þingmaður og hennar flokkur í prinsippinu algerlega á móti því?