154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[11:30]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni kærlega fyrir andsvarið. Nei, það er ekki prinsipp að það sé nein mótstaða við allar slíkar aðgerðir svo fremi sem tryggt sé að þær séu vel ígrundaðar, greiningarvinna hafi átt sér stað og það sé ljóst að þetta hafi ekki neikvæð áhrif á hag neytenda og að þetta hagnist bændum. Og af því að hv. þingmaður vísar hér aðeins í Evrópuréttinn og hér hefur t.d. verið vísað líka í stöðu mála í Noregi þá liggur það fyrir að bæði í Evrópusambandinu og síðan í Noregi þá er við allar aðgerðir, allar undanþágur, fókuserað fyrst og fremst á stöðu bænda en ekki afurðastöðva. Það þýðir ekki að afurðastöðvarnar eigi algerlega að vera undanskildar og alveg ljóst að margar þeirra ríða ekki feitum hesti frá sínu starfi. Til þess er 15. gr. samkeppnislaga, að veita slíkar undanþágur t.d. En aftur: Ef þetta er vel ígrundað og nákvæmt til hvers er ætlast og það nokkuð ljóst a.m.k. að lögð hafi verið vinna í að þetta nái markmiði sínu þá er það ekki neitt sem við erum algerlega í prinsippinu á móti.