154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[11:33]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru fínar hugleiðingar hjá hv. þingmanni en ekki bein spurning ef ég tók rétt eftir. Ég vil aðeins samt fá að nota tækifærið hér af því að hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson segir að 15. gr. samkeppnislaga hafi ekki virkað sem skyldi til að nefna að það hefur bara ekki reynt á það. Í fyrsta lagi hefur ekki reynt á það … (Gripið fram í.) — akkúrat, og það er kannski nákvæmlega punkturinn; ef menn geta ekki rökstutt að ávinningurinn skili sér til bænda, hafi ekki neikvæð áhrif á markaðinn, skili sér til neytenda eins og skilyrðin eru fyrir breytingunni, hvað þá? Fara menn þá bara og koma með einhvern plástur annars staðar? Af hverju fara menn ekki í þessa vinnu? Og ef sjálfsmatið er of flókið, og nú er ég kannski að vísa svolítið í umræðuna hér í gær, sem var sett á í 15. gr. með breytingum á lögum hér í þingsal fyrir fjórum árum, ef það eitt og sér gerir að verkum að menn treysta sér ekki til að breyta þessari reglu sem á að beita þegar atvinnugreinar eða fyrirtæki lenda í vanda vegna markaðsbrests eða einhverra aðstæðna, ef hún virkar ekki þá hvílir ábyrgð á okkur hér á þingi að breyta þeirri grein. Ekki að fara í þessa plástra sem opna allt upp á gátt og enginn veit hvar endar, sem enginn veit hvort er raunverulega sú aðgerð sem gagnast bændum best og enginn veit hvaða áhrif hefur á neytendur, á heimilin í landinu, á lántakendur og, í ljósi þeirra aðstæðna sem við búum við núna, enginn veit hvaða áhrif hefur á viðleitni okkar hér til að hemja verðbólgu og ná vöxtum niður sem fyrst. Það er punkturinn.