154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[11:35]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram. Hv. þingmenn hafa velt fyrir sér spurningum, athugasemdum, sem komið hafa fram í meðferð málsins á seinni stigum. Mig langar í upphafi að fara aðeins yfir það, af því að hér er verið að tala um nýtt mál, að nefndasvið Alþingis vinnur mjög þétta og góða vinnu og hefur ákveðinn ramma sem unnið er eftir. Ég vil taka fram að það hefur ekki verið neitt annað en ánægjulegt og gott að starfa með öllu því hæfa starfsfólki sem skipar nefndasviðið. Við þekkjum það í atvinnuveganefnd að hafa verið rekin til baka með mál og þurft að taka þau upp sjálf — það er vel þekkt í atvinnuveganefnd eins og hv. þingmenn Jóhann Páll Jóhannsson og Hanna Katrín Friðriksson þekkja — vegna athugasemda nefndasviðs hvað það varðar að við séum farin út fyrir rammann.

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að vitna í ákveðinn texta sem tilheyrir þessu ágæta máli: Í umfjöllun nefndarinnar kom skýrt fram að þau framleiðendafélög sem upphaflegt frumvarp gerði ráð fyrir næðu ekki fyllilega utan um þau fyrirtæki sem ætlað var, þ.e. slátrun á dýrum, heldur næðu eingöngu til sláturaðila, svokallaðra hvítakjötsaðila, eins og komið hefur fram. Það voru einungis þrír aðilar sem rúmuðust í upphaflegu frumvarpi matvælaráðherra. Þar af leiðandi lagði meiri hlutinn til breytingar á frumvarpinu sem var ætlað að taka utan um víðtækari hóp aðila sem stunda þetta. Af breytingartillögum meiri hlutans leiðir að framleiðendafélög verða, ef tilgreind skilyrði eru uppfyllt, undanskilin annars vegar 10. og 12. gr. samkeppnislaga og hins vegar 17. gr. a til 15. gr. e samkeppnislaga, en ákvæði 11. gr. samkeppnislaganna, um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, gildir hins vegar áfram, auk þess sem Samkeppniseftirlitinu er ætlað að fara með eftirlit með framkvæmd. Breytingartillaga nefndarinnar er að efni og markmiði sambærileg því frumvarpi sem matvælaráðherra lagði fram. Þær breytingartillögur sem atvinnuveganefnd hefur haft til umfjöllunar uppfylla því skilyrði stjórnskipunar um efnisleg tengsl og auðkenningu við það frumvarp sem nefndin hefur haft til athugunar. Hér lýkur tilvitnun.

Þeim athugasemdir sem hafa komið fram tel ég að hafi verið svarað í því sem ég var að flytja áðan. Á fundi í hv. atvinnuveganefnd í morgun kom fram ósk um að ég færi yfir og gerði athugasemdir við bréf frá Samkeppniseftirlitinu og ég mun gera það á næstu mínútum. Eins og fram hefur komið barst nefndinni bréf í gærkvöldi rétt áður en nefndin fundaði kl. 19.30 með ítarlegum athugasemdum frá Samkeppniseftirlitinu. Það kom fram í umræðu á fundi atvinnuveganefndar í gærkvöldi að við sem höfum verið að vinna málið og komið að því á mörgum stigum undanfarin ár — og ég tek fram að sambærileg mál hafa verið lögð fram áður — höfðum sömuleiðis tekið eftir þessum athugasemdum.

Varðandi a-lið í því bréfi sem vitnað er til kemur fram að kjötafurðastöðvum verði heimilað að hafa með sér samráð um verkaskiptingu, verðlagningu eða aðra þætti í starfseminni. Þetta er hárrétt og tilgangur frumvarpsins er að heimila hvers konar samráð og verkaskiptingu, verðlagningu og aðra þætti starfsemi kjötafurðastöðva. Í upphaflega frumvarpinu var eingöngu horft til þeirra afurðastöðva sem væru í meirihlutaeigu bænda og eins og þingheimur veit varð nefndin að grípa til þessa, til þess að ná utan um sauðfé og nautakjöt, til að það rúmaðist þarna inni, og það var gert. Síðan kemur athugasemd við það að kjötafurðastöðvum verði heimilað að sameinast án allra takmarkana. Ég geri alvarlegar athugasemdir við þessa fullyrðingu. Þetta er einfaldlega rangt því að undanþágan gerir ráð fyrir því að kjötafurðastöðvum verði heimilt að sameinast en þær þurfa engu að síður að fullnægja ákveðnum skilyrðum hyggist þær nýta sér þessa heimild. Þessi skilyrði eru tiltekin í breytingartillögunni, liður a, b, c og d, og ætla ég ekki að fara frekar yfir þau hér.

Einnig er talað um að það þekkist hvergi í nágrannalöndum okkar að slíkar undanþágur séu fyrir hendi. Ég vil bara benda á að í Noregi eru sérsniðnar undanþágur fyrir norskan landbúnað og þar eru auk þess ákveðin ráð sem fara yfir verðlagningu, sömuleiðis varðandi innflutning. Þótt þessar ákveðnu reglur gildi í Noregi þá gilda sömuleiðis samrunareglur þrátt fyrir undanþágu, þar mega menn beita misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Það erum við ekki að gera hér, langt í frá. Það þekkist því að þessar heimildir eru til og ég tiltek Noreg vegna þess að þar ganga menn mun framar í því sem við erum að tala um hér.

Það hefur sömuleiðis verið mikið í umræðunni að frumvarpið veiti ákveðið sjálfdæmi í verðlagningu til bænda og smásölu og neytenda. Það er alveg hárrétt. Ég vil taka fram að það er líka þannig í dag. Bændum er óheimilt að semja um verð. Vissulega geta það verið rök í málinu að ef hér væri einokun á markaði, ef hér væri eitt stórt fyrirtæki og markaðurinn væri lokaður fyrir innflutningi þá væri sannarlega um einokun að ræða. En það er nú einu sinni þannig að landið er galopið fyrir innflutningi. Jú, það eru hér einhverjar varnir í tollum en samkeppni á smásölumarkaði hér heima kemur erlendis frá. Innlend matvælaframleiðsla er í harðri samkeppni við matvæli sem koma erlendis frá og hafa ber það í huga.

Varðandi verð til bænda vil ég vekja athygli á því að þrátt fyrir að í dag sé bændum óheimilt að semja um verð við afurðastöðvar sínar þá hefur verð undanfarin tvö ár vegna lambakjötsframleiðslu hækkað um 62%. Jú, það veitti ekki af því. En það verður alltaf þannig, burt séð frá því hvort við erum hér með eitt risastórt fyrirtæki og nokkur lítil, eða hvernig sem það verður, að grundvallaratriði í framleiðslu á matvælum verður það að frumframleiðandinn geti lifað af því, að hann geti skaffað og afhent vöru og þar af leiðandi geti hann haldið áfram að framleiða. Ef það er þannig að menn fá ekkert fyrir vöruna þá hætta menn væntanlega og snúa sér að einhverju öðru. Það þekkjum við.

Síðan er hér umræða í gangi sem ég á mjög erfitt með að skilja sem snýr að því að þetta frumvarp hafi neikvæð áhrif á kjarasamninga. Ég verð að segja að ég skil ekki þessa umræðu. Ég vil vekja athygli á því að í tengslum við lífskjarasamninga sem gerðir voru 2019 var mælt fyrir því að það væri nauðsyn að hagræða í vinnslu og slátrun kjötafurða. Þetta var tengt við lífskjarasamningana. Tilgangurinn með meirihlutaáliti atvinnuveganefndar varðandi þá undanþágu sem hér er verið að ræða snýr fyrst og fremst að því að bæta hag bænda og neytenda. Það er grundvallaratriðið. Ég get haldið hér langar ræður til viðbótar hvað það varðar hversu illa nýtt sláturhús og kjötvinnslur landsins eru vegna þess að mönnum er óheimilt að hagræða. En ég vil líka geta þess, vegna þess að það er ákveðið áhyggjuefni, að ég skil alveg þann tónn sem hefur komið hérna fram sem snýr að hinu svokallaða hvíta kjöti og ég tek hann til mín hvað það varðar. Jú, þetta er galopin heimild, það er alveg hárrétt, en við skulum líka horfa til þess að í dag er það þannig að við erum kannski að tala um þrjá aðila á kjúklingamarkaði, það eru þrír aðilar á kjúklingamarkaði. Það er mikill innflutningur á kjúklingi, það er hörkusamkeppni á þessum markaði. En í grunninn er það þannig að framleiðsla t.d. á kjúklingakjöti byggist á því að þú ert ekki að flytja sláturdýr, þ.e. kjúklinga, langar leiðir til slátrunar. Þetta er venjulega þannig að húsin eru mjög nálægt sínu sláturhúsi og þetta er allt í sjálfu sér á einni hendi, þ.e. framleiðsla, slátrun og sala. Ég skil vel að fólk hafi áhyggjur af þessu og ég skil vel margt af því sem fólk hefur lýst áhyggjum yfir og ég er að reyna að svara því hér því að það er mjög mikilvægt í þessu samhengi að við reynum að horfa á stóru myndina og köllum ekki yfir okkur einhverja grýlu sem ég á afskaplega erfitt með að horfast í augu við. Þetta er eiginlega skot fyrir neðan beltisstað hvað varðar það sem snýr að kjarasamningunum. Ég skil engan veginn þau rök en skil mörg af þeim rökum og þeim áhyggjum sem hafa komið fram og ég tel mig hafa reynt að svara því.

Það hefur sömuleiðis komið fram að menn hafa áhyggjur af því að við séum að fara á svig við lög, þ.e. ESA. Ég vil bara benda á að Noregur er í EFTA nákvæmlega eins og við og ég fór yfir það áðan að Noregur er að beita mun meiri heimildum en við erum að ræða um í því frumvarpi sem hér um ræðir, svo að við höfum það algerlega á hreinu. Eins og kemur fram í nefndarálitinu er ágætlega farið yfir það, að vísu ekki tæmandi listi þar sem það væri nú að æra óstöðugan, hvernig þessu er hagað í öðrum löndum. Þar af leiðandi kemur það fram í nefndaráliti, og þar er fjallað um Noreg, Svíþjóð og Finnland, að undanþágurnar eru algerlega ólíkar á milli þessara þriggja landa, Finnlands, Svíþjóðar og Noregs. Ég ætla svo sem ekki að fara nánar út í það hérna en það ber að hafa í huga að þetta er verið að gera mjög víða. Það er beinlínis rangt að halda því fram að það sem við erum að gera á Íslandi gangi framar en það sem gerist í nágrannalöndum okkar.

Við verðum að horfa á þessa þætti opnum augum og það sem ég vil benda á hér rétt að lokum er að við höfum reynt að horfa til þess hvernig við getum tekið utan um starfsskilyrði landbúnaðarins til fjölda ára. Það er búið að skrifa fjölda skýrslna. Við erum búin að taka málið oft fyrir og mikið af þessum áhyggjum sem blossuðu upp í morgun í fjölmiðlum — (Forseti hringir.) við höfum séð þetta allt áður.

Ég segi bara: Við skulum halda umræðunni áfram. (Forseti hringir.) Ég sé að það eru fleiri á mælendaskrá og ég reikna með einhverjum andsvörum, mér sýnist það — Takk fyrir í bili.