154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[11:54]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég er sannfærður um það að þau skref sem verið er að stíga hér með framlagningu þessa frumvarps eru góð fyrir bændur. Það er mjög mikilvægt að við höfum það í huga að við þurfum að bregðast við á þann hátt að við getum hagrætt, bændum og neytendum til hagsbóta. Það er númer eitt, tvö og þrjú í þessu. Það hvernig við förum að því og hvaða leiðir við eigum að fara getum við örugglega deilt um endalaust. En mér heyrist samt yfir höfuð allir sjá — við erum með sama markmið en okkur greinir á um leiðirnar um hvernig við komum að því. Þetta er leiðin sem meiri hlutinn leggur hér til og þá leið sem bóndi er ég nú bara mjög hlynntur að fara. Ég tel hana mjög æskilega fyrir framþróun á innlendri matvælaframleiðslu.