154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[12:09]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni atvinnuveganefndar fyrir svarið. Ég held að þarna hafi hreinlega verið komið inn á kjarna málsins. Hvers vegna ætlum við í umsagnarferli þegar ólíklegt er að málið taki nokkrum einustu breytingum? Það skiptir nefnilega höfuðmáli að hagsmunaaðilar hafi virkt færi á því að koma athugasemdum sínum á framfæri og vera í efnislegum umræðum á vettvangi nefndastarfa til að auka líkur á því að sátt skapist um nýtt fyrirkomulag. Það er bara kjarninn í andmælaferlinu. Upplifi hagsmunaaðilar að á þá sé markvisst ekki hlustað þá er ekki nokkur einasti grundvöllur fyrir samvinnunni, sem hér var svo réttilega minnt á af hálfu hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar. Ég vil bara koma því áleiðis að andmælarétturinn er og verður kjarninn í okkar stjórnsýslu og hann á líka að vera kjarnavinnuregla í því hvernig við setjum lög. (Forseti hringir.) Aðferðir og leiðir skipta ekki bara máli í því hvernig lögin hljóma og hvernig þau eru útfærð heldur líka hvernig við setjum þau.