154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[12:12]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Við erum hér að ræða mál sem snertir hinn forna atvinnuveg þjóðarinnar og ég sakna þess verulega í þessari umræðu, sérstaklega af hálfu Framsóknarmanna, að þeir leiti í ræturnar við að leysa úr þessum málum sem uppi eru. Það sem þeir setja á borðið, að það sé verið að leiðrétta kjör, koma á hagræðingu og það allt, ég sé engin merki þess í því frumvarpi sem hér um ræðir, ekki nokkur, heldur er niðurstaðan í frumvarpinu einfaldlega sú að koma á einokunarstarfsemi. Þá er rétt að skoða hvað það hefur leitt af sér, því það eru nú nokkur ár síðan þessi ágæti forni flokkur villtist af leið, og ef við skoðum það þegar farið var fyrir nokkrum áratugum síðan í ríkishagræðingu með fækkun sláturhúsa, þau voru úrelt, þá eru nú kannski Framsóknarmenn bestir í að svara því: Hefur það bætt kjör bænda? Hafa kjör bænda batnað mjög síðan t.d. sláturhúsunum hefur fækkað með framlagi ríkisins? Ef ég les bara Bændablaðið, sem ég geri reglulega, fer í söluturna og bensínstöðvar og þar er þetta ágæta blað, hvað er þar framarlega í fyrirsögnum? Það eru slæm kjör bænda, þannig að sú leið sem flokkurinn er að fara hér, sem hann markaði fyrir nokkrum áratugum; samþjöppun, fákeppni, hefur ekki skilað sér til bænda nema þá að hv. þingmaður, formaður atvinnuveganefndar, komi hér og útskýri fyrir mér að þessi leið sem við erum að ganga hér til enda, búa til einokunarfyrirtæki, sé einhver bjarghringur fyrir bændur. Það er ekki svo. Og hvort sem þetta frumvarp verður að lögum eður ei þá þarf að fara fram endurskoðun á þessu. Þessi leið sem flokkurinn hefur markað á síðustu 20 árum er komin út í algera vitleysu. Ég held að leiðin sé fyrir Framsóknarflokkinn að leita aðeins í upprunann, að skoða félagslegt réttlæti, siðferðileg gildi og niðurstaðan getur nú varla verið sú að búa til einokunarfyrirtæki. Þá held ég að það sé alveg ljóst að þeir eru á leiðinni í algerar ógöngur og algjört fúafen.

En það sem ég óttast, og ég veit að margir bændur óttast það líka, er að þegar þetta er orðin svona mikil fákeppni einhverra stórfyrirtækja þá verði ákveðin stöðnun í greininni, stöðnun í úrvinnslugreinunum og að það leiði auðvitað til þess að það verði erfiðara að halda á móti því að það verði opnað í meira mæli fyrir innflutning, þannig að þetta frumvarp setur ekki jákvæðan stimpil á þessa atvinnugrein. Það held ég að allir séu sammála um, og svona í ljósi samvinnuhugsjónarinnar hefði ég talið það vera einnar messu virði a.m.k. að fara betur yfir málið, ná meiri sátt í samfélaginu í stað þess að vera að opna fyrir fákeppni og einokun fyrirtækja sem eru ekki með gott orð á sér, alls ekki. Það eru fyrirtæki sem tengjast þessum iðnaði sem hafa verið okurfélög og ég vil segja lúskrað á leigjendum landsins í því ástandi sem hefur verið á húsnæðismarkaðnum.

Niðurstaða okkar í Flokki fólksins er að þetta er ekki gott mál. Þetta er ekki gott fyrir bændur. Þetta er ekki gott fyrir atvinnuveginn og mjög slæmt mál fyrir Framsóknarflokkinn. Þess vegna segi ég við vini mína í Framsókn: Farið betur yfir málið, látið hugsjónina svona ráða för og farið betur yfir þetta. Náum sátt í þessu máli sem snertir þá atvinnugrein sem okkur þykir vænt um, neytendur og yfirvöld í landinu sem hafa lagt fram varnaðarorð, eftirlitsstofnanir sem hafa eftirlit með samkeppni og öðru. Þetta er ekki gott mál, sérstaklega ekki fyrir Framsóknarflokkinn.