154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[12:18]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Hér áðan lýsti hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson því yfir að hann skildi ekki þau rök hvernig þetta gæti haft áhrif á kjarasamninga. Mig langar að benda hv. þingmanni á það bréf sem atvinnuveganefnd barst frá Alþýðusambandi Íslands en þar segir, með leyfi forseta:

„Alþýðusamband Íslands (ASÍ) telur með öllu óviðunandi að stjórnvöld stefni beinlínis að því að skerða kjör launafólks og neytenda með stórhættulegum breytingum á búvörulögum. Jafnframt er vakin athygli á að sú hringamyndun og verðstýring sem stefnt er að með frumvarpinu vinnur beinlínis gegn nýgerðum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.“

Já, þetta ætti að vera nokkuð einfalt. Þessar breytingar munu leiða til hærra verðs til neytenda og þar af leiðandi hærri verðbólgu og þar af leiðandi ganga gegn kjarasamningum. Ég vona að þetta hafi verið nógu einfaldlega útskýrt þannig að það fari ekki á milli mála hjá neinum.

En mig langar að nýta tækifærið og lesa aðeins meira upp úr þessu bréfi Alþýðusambandsins, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur að breytingar þær sem meiri hluti atvinnuveganefndar vill gera ganga miklu lengra en þekkist í nágrannalöndum og efasemdir hljóta að vakna um að þessi gjörningur stæðist skoðun samkvæmt EES-reglum. […]

Fyrir skemmstu var skrifað undir sögulega kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem hafa það einkum að markmiði að vinna gegn verðbólgu til að þannig megi færa niður vaxtastig í landinu. Samningunum fylgir mikilvæg yfirlýsing stjórnvalda um aðkomu þeirra næstu fjögur ár.

Vilji meiri hluta atvinnuveganefndar vinnur beinlínis gegn þessu markmiði og vekur vægast sagt mikla furðu að kjörnir fulltrúar almennings hyggist ganga fram með þessu móti. ASÍ telur alla meðferð málsins með miklum ólíkindum og hvetur þingmenn til að huga að afleiðingum gjörða sinna. Ólíðandi er með öllu að vélað sé um hagsmuni fólksins í landinu með svo ófyrirleitnum hætti, nánast í skjóli nætur, í bakherbergjum Alþingis.“

Já, frú forseti, þetta eru stór orð sem ein stærstu samtök verkalýðsins hér á landi láta frá sér um þetta mál og ættu að vera næg varnaðarorð til þess að við sem hér inni sitjum pössum okkur aðeins meira og vinnum þetta aðeins betur. Það er enginn að segja að það verði einhverjar breytingar en förum ekki of hratt í gegnum þetta. Vinnum að því að það sé breiðari sátt um þessar veigamiklu breytingar sem verið er að gera. Köllum þetta mál aftur inn til nefndar áður en það fer í atkvæðagreiðslu og skoðum hvort við getum ekki fundið lausn á þessu máli, ekki bara hér í einhverjum bakherbergjum heldur leggjum vinnu í þetta. Hlustum á sérfræðingana og vinnum málið betur.