154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[13:29]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál og þessi umræða snýst ekkert um það að hér séu nokkrir þingmenn sem eru ósammála þeirri leið sem verið er að fara, alls ekki. Og hvort afstaða þeirra snúist eða ekki, það er ekki aðalatriðið. Fyrir þá sem eru að huga að því að fylgja samvinnuhugsjóninni þá snýst hún auðvitað um að búa til samvinnu og tryggja siðferðisleg gildi í samfélaginu og búa til breiða sátt, hvort sem þessir þingmenn sem eru inni verði allir á einu máli eða ekki. Ég tel því rétt, ef frumvarpið er svona gott, að reyna þá að leiða það fyrir sjónir þeirra sem hafa gefið mjög neikvæða umsögn. Ég er að tala um verkalýðshreyfinguna, ég er að tala um neytendur í landinu og þá sem fara með samkeppnismálin. Ég hefði talið að það sé verkefni samvinnumanna hér í landinu en ekki að reyna að troða einhverju frumvarpi öfugt ofan í fólkið. Mér finnst það vera mjög mikilvægt og ég held að það væri eiginlega best fyrir Framsókn að fara þá leið.

En að öðru: Ef vandamálið er fákeppni, og ég veit að hv. þingmaður hefur mikla þekkingu á matvörumarkaðnum, lægi það þá ekki beinast við að leysa það vandamál í staðinn fyrir að búa til annað vandamál sem er jafnvel stærra? Við verðum bara að horfast í augu við það að fækkun afurðastöðva, sláturhúsa og allt það — það hefur ekki alveg runnið beint í vasa bænda.