154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[15:32]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hún var þannig að ég verð að ná í gleraugun, eins og sjá má. Það voru, líkt og hv. þingmaður nefnir, ábendingar sem komu frá Persónuvernd og hluta þeirra var hið minnsta mætt. Það sem við erum að horfa til er að það fari fram mat á áhrifum á persónuvernd þegar upplýsingatæknilegar lausnir liggja fyrir á þeirri gátt — þetta snýst nú allt um þjónustugáttina sem hér er um að ræða. Það er svona meginhlutinn sem viðbrögðin felast í, að það muni fara fram þegar þessar upplýsingatæknilegu lausnir liggja fyrir. Það er eiginlega bara sjálfsagt mál að skoða það líka betur inni í nefndinni með hvaða hætti ráðuneytið brást sérstaklega við þessum athugasemdum Persónuverndar.